Innlent

„Þetta var svakalegt að sjá eldtungurnar“

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ólafur Þór Ólafsson er sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.
Ólafur Þór Ólafsson er sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps. Steingrímur Dúi Másson

Viðbragðsaðilar náðu að bjarga verðmætum Arctic Fish í Tálknafirði þegar húsnæði þess brann í gær og getur regluleg starfsemi fyrirtækisins því haldið áfram, að sögn sveitarstjóra, sem var með þeim fyrstu á vettvang brunans í gær.

Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Ólaf Þór Ólafsson, sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps, en eldurinn kviknaði í nýbyggingu Arctic Fish, sem átti að verða sú stærsta af þremur undir eldisker. 

Í þorpinu á Tálknafirði búa um 270 manns. Þar var mönnum því brugðið að sjá bygginguna loga nánast stafnanna á milli.

Frá brunanum í eldisstöð Arctic Fish í gær.Aðsend

„Þetta er áfall þegar svona gerist í hvaða samfélagi sem er. Þannig að okkur sannarlega brá.“

-Og þetta er bara einhver mikilvægasti vinnustaður Tálknafjarðar?

„Já. Þetta er mjög mikilvægur vinnustaður og starfsstöð, ekki bara í Tálknafirði heldur á öllum Vestfjörðum og fyrir landið allt, af því að þetta er stærsta seiðastöð landsins og hefði verið mikið áfall, - eða það hefði geta farið mikið verr heldur en það fór í gær.

Viðbragðsaðilar stóðu sig frábærlega þarna í gær. Slökkvistarf gekk það vel að það náðist að bjarga þeim verðmætum, - nánast að bjarga starfseminni sem er í gangi. Þannig að regluleg starfsemi heldur áfram. Það skiptir okkur miklu máli,“ segir sveitarstjórinn.

Stöðin er í botni Tálknafjarðar. Byggingarnar eru þær stærstu á Vestfjörðum.Steingrímur Dúi Másson

Sjálfur varð hann vitni að eldsvoðanum.

„Já, ég var nú bara með þeim fyrstu á vettvang þegar kviknaði í. Mér leist nú ekkert sérstaklega vel á þegar ég kom þarna að og sá eldtungurnar liggja frá húsinu.

Það er súrefnistankur þarna, fullur af fljótandi súrefni, sem var þarna við. Nei, þetta var bara svolítið svakalegt þarna í gærmorgun,“ segir Ólafur Þór, sveitarstjóri á Tálknafirði.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Hér má sjá beina útsendingu Stöðvar 2 frá vettvangi í gærkvöldi:


Tengdar fréttir

Elds­upp­tökin enn ó­ljós

Vettvangur stórbruna á Tálknafirði í gær hefur verið afhentur lögreglu til rannsóknar. Engar vísbendingar eru um hver eldsupptök voru en nóg var af eldsmat inni í húsinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×