Fótbolti

Pogba loksins klár í slaginn og gæti spilað fyrsta leikinn í tæpt ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul Pogba er loksins tilbúinn að spila.
Paul Pogba er loksins tilbúinn að spila. getty/Daniele Badolato

Eftir margra mánaða fjarveru vegna meiðsla er Paul Pogba loksins klár í slaginn. Hann verður í leikmannahópi Juventus í borgarslagnum gegn Torino í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Pogba hefur ekki enn spilað fyrir Juventus síðan hann kom til félagsins frá Manchester United í sumar. Biðinni gæti loks lokið í kvöld en Massimiliano Allegri, knattspyrnustjóri Juventus, staðfesti á blaðamannafundi að Frakkinn yrði í hópnum gegn Torino.

„Hann er betri og verður í hópnum. Ef þörf krefur munum við setja hann inn á en hann mun ekki geta spilað mikið,“ sagði Allegri.

Pogba hefur ekki spilað leik í tæpt ár, eða síðan 19. apríl í fyrra þegar Manchester United tapaði fyrir Liverpool, 4-0.

Fyrr í þessum mánuði bárust fréttir af því að forráðamenn Juventus væru orðnir þreyttir á Pogba og íhuguðu jafnvel að rifta samningi hans við félagið eftir tímabilið. Þeim finnst Pogba óábyrgur og eru pirraðir yfir því að hann hafi ekki farið í aðgerð á hné því hann taldi að það ógnaði þátttöku hans á HM í Katar, þar sem hann spilaði svo ekki.

Pogba er einn launahæsti leikmaður Juventus en talið er að hann fái rúmlega sjö milljónir punda í árslaun hjá félaginu. Franski miðjumaðurinn lék áður með Juventus á árunum 2012-16 og varð þá fjórum sinnum ítalskur meistari með liðinu og hjálpaði því að komast í úrslit Meistaradeildar Evrópu 2015.

Leikur Juvnetus og Torino hefst klukkan 19:45 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×