Fótbolti

Mourinho sá rautt og Roma tapaði gegn botnliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
José Mourinho sá rautt í tapi Roma í kvöld.
José Mourinho sá rautt í tapi Roma í kvöld. Alessandro Sabattini/Getty Images

Í þriðja skiptið á tímabilinu var hinn skrautlegi þjálfari Roma, José Mourinho, rekinn upp í stúku með beint rautt spjald er liðið mátti þola 2-1 tap gegn botnliði Cremonese í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Það var Frank Tsadjout sem kom heimamönnum í Cremonese í forystu eftir aðeins 17 mínútna leik, en það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks

Gestirnir frá Rómarborg mættu svo til leiks í síðari hálfleik án þjálfara síns því rétt áður en liðin gengu til búningsherbergja helti Moruinho sér yfir dómara leiksins og fékk að líta beint rautt spjald.

Þ´ratt fyrir þjálfaraleysið tókst gestunum að jafna metin með marki frá Leonardo Spinazzola þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Heimamenn tóku þó forystuna á ný þegar Daniel Ciofani skoraði af vítapunktinum á 82. mínútu leiksins og þar við sat. 

Niðurstaðan því 2-1 sigur Cremonese, en þetta var fyrsti sigur liðsins á tímabilinu. Eftir sigurinn situr Cremonese í næstneðsta sæti deildarinnar með 12 stig eftir 24 leiki, átta stigum frá öruggu sæti. Roma situr hins vegar í fimmta sæti með 44 stig, einu stigi frá Meistaradeildarsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×