Fótbolti

Mourinho rekinn út af í þriðja sinn í vetur: „Ég er tilfinningaríkur en ekki brjálaður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Orð fjórða dómarans fóru illa í José Mourinho.
Orð fjórða dómarans fóru illa í José Mourinho. getty/Alessandro Sabattini

José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, fékk rautt spjald í þriðja sinn á tímabilinu þegar hans menn töpuðu óvænt fyrir Cremonese, 2-1, í ítölsku úrvalsdeildinni í gær. Portúgalinn var ósáttur við fjórða dómara leiksins.

Seinni hálfleikurinn var aðeins tveggja mínútna gamall þegar Mourinho var rekinn af velli. Hann sagðist hafa lent í nokkru sem hann hefur aldrei áður lent í.

„Ég er tilfinningaríkur en ekki brjálaður. Í fyrsta sinn á ferlinum talaði dómari á óafsakanlegan hátt við mig,“ sagði Mourinho í leikslok. 

„Því miður er fjórði dómarinn ekki nógu heiðarlegur til að greina frá því hvað hann sagði við mig, hvernig hann sagði það og kom fram við mig sem var ástæða þess að ég brást svona við. Ég vil komast að því hvort það er til hljóðupptaka af því sem hann sagði við mig.“

Næsti leikur Roma er gegn Juventus og Mourinho ýjaði að því að fjórði dómarinn, sem er frá Tórínó, hafi látið reka hann út af til að hann myndi missa af leiknum um næstu helgi.

Mourinho var einnig rekinn af velli í leik gegn Atalanta í september og gegn Torino í nóvember.

Sigur Cremonese var sá fyrsti hjá liðinu í ítölsku úrvalsdeildinni frá tímabilinu 1995-96. Fyrir leikinn hafði liðið leikið samtals þrjátíu leiki í efstu deild í röð án þess að vinna sem er met.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×