Handbolti

Eftir skelfinguna í gær verður Ísland að vinna með sex marka mun

Sindri Sverrisson skrifar
Bjarki Már Elísson og félagar í landsliðinu búa að því að hafa náð 6. sæti á síðasta EM, í janúar 2022.
Bjarki Már Elísson og félagar í landsliðinu búa að því að hafa náð 6. sæti á síðasta EM, í janúar 2022. EPA-EFE/Adam Ihse

Íslenska karlalandsliðið í handbolta verður í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir næsta Evrópumót ef liðinu tekst að vinna Tékka með sex marka mun í Laugardalshöll á sunnudaginn. Það gæti reynst afar dýrmætt.

Niðurlægingin gegn Tékkum í Brno í gær, þar sem Ísland tapaði 22-17, gerir að verkum að Ísland gæti hæglega misst af sæti í efsta flokki. Eina örugga leiðin til að koma í veg fyrir það er að minnsta kosti sex marka sigur á sunnudag (eða fimm marka sigur ef Tékkar skora sextán mörk eða minna).

Og málið er einfalt. Sæti í efsta styrkleikaflokki færir Íslandi auðveldari andstæðinga en ella í riðli á EM og þar með betra færi á að ná sem lengst þar.

Rétt er að taka fram að Ísland og Tékkland eru vissulega í undanriðli með Eistlandi og Ísrael en það eru mun lakari handboltaþjóðir sem bæði Íslendingar og Tékkar unnu stórsigra gegn fyrr í vetur. Ísland og Tékkland munu því án efa komast bæði á EM, því þangað fara efstu tvær þjóðir úr hverjum riðli, og baráttan snýst um hið mikilvæga efsta sæti riðilsins.

Gætu sloppið við allar bestu þjóðirnar

Ísland kom sér í mjög góða stöðu varðandi dráttinn í riðla á EM með árangri sínum á síðasta Evrópumóti, fyrir tveimur árum, þegar liðið náði 6. sæti þrátt fyrir kórónuveirufár.

Takist Íslandi að komast í efsta styrkleikaflokk losnar liðið við að lenda í riðli á næsta EM með til að mynda Spáni og sennilega Frakklandi einnig. Þannig yrði engin af bestu þjóðum heims — þessum sem urðu í átta efstu sætum síðasta EM eða sex efstu sætum síðasta HM — í riðli með Íslandi.

EM í janúar fer fram í Þýskalandi og þar spila 24 lið í sex riðlum. Eins undarlegt og fólki kann að finnast það þá var fyrir nokkru ákveðið í hvaða riðlum sex af sterkustu þjóðum Evrópu myndu spila.

Þannig er þegar ljóst að Ísland verður í C-riðli mótsins og spilar í München. Liðin tvö sem komast áfram úr C-riðli í milliriðla munu svo spila við lið úr A- og B-riðli, en vitað er að gestgjafar Þýskalands verða í A-riðli og Króatía í B-riðli. Það gætu því orðið keppinautar Íslands um sæti í undanúrslitum, ef við leyfum okkur að hugsa langt fram í tímann.

Noregur mun spila í D-riðli, Svíþjóð í E-riðli og Danmörk í F-riðli, svo Ísland getur ekki dregist í riðil með þessum þremur liðum.

Sterkustu liðin sem eftir eru, eru því Spánn og Frakkland sem Ísland getur sloppið við að lenda í riðli með takist liðinu að vinna Tékka og tryggja sér efsta sæti síns undanriðils.

Mikið í húfi í fyrstu leikjum án Guðmundar

Einu liðin sem nú þegar vita í hvaða styrkleikaflokki þau verða fyrir EM-dráttinn eru Svíþjóð, Spánn og Danmörk, sem verða í efsta flokki vegna árangurs á síðasta EM, og gestgjafar Þýskalands sem verða í 2. flokki.

Öðrum þjóðum verður raðað í flokka eftir því hvaða lið unnu sinn riðil í undankeppninni og svo út frá því hvar þau enduðu á síðasta EM. Sex lið verða í hverjum styrkleikaflokki og þar sem Ísland náði 6. sæti á síðasta EM verður liðið í efsta flokki ef það vinnur sinn undanriðil.

Það er því mikið í húfi í leikjunum gegn Tékkum sem Íslands spilar undir stjórn Gunnars Magnússonar og Ágústs Jóhannssonar, sem stýra landsliðinu á meðan leitað er að arftaka Guðmundar Guðmundssonar.

Vert er einnig að hafa hugfast að því ofar sem Ísland endar á EM í janúar, því meiri líkur eru á að liðið komist í undankeppni Ólympíuleikanna í París 2024. Auðveldari mótherjar, vegna röðunar í styrkleikaflokka, auka vissulega líkurnar á að ná sem lengst á mótinu.


Tengdar fréttir

Stiven nýliði í fyrsta hópnum eftir að Guðmundur hætti

Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson, sem stýra íslenska karlalandsliðinu í handbolta til bráðabirgða eftir brotthvarf Guðmundar Guðmundssonar, hafa valið landsliðshóp fyrir komandi leiki við Tékka. Valsarinn Stiven Tobar Valencia fær sitt fyrsta tækifæri í landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×