Viðskipti innlent

Al­vot­ech tapaði rúm­lega 73 milljörðum króna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Róbert Wessman þegar hlutabréf Alvotech voru tekin til viðskipta í Nasdaq First North Growth markaðnum.
Róbert Wessman þegar hlutabréf Alvotech voru tekin til viðskipta í Nasdaq First North Growth markaðnum. Vísir/Vilhelm

Alvotech tapaði 513,6 milljónum dollara árið 2022, rúmlega 73 milljörðum íslenskra króna. Heildartekjur á árinu voru 85 milljónir dollara og jukust um 45 milljónir milli ára.

Þetta kemur fram í uppgjöri Alvotech sem verður kynnt klukkan eitt í dag. Fyrirtækið á 66,4 milljónir dollara í lausu fé en heildarskuldir félagsins nema 764,6 milljónum dollara eða 108 milljörðum íslenskra króna. 

Rannsóknar- og þróunarkostnaður Alvotech árið 2022 nam 180,6 milljónum dollara og stjórnunarkostnaður nam 186,7 milljónum dollara. Fjármagnsgjöld námu 188,4 milljónum dollara. 

Heildartekjur Alvotech hækkuðu um 114 prósent milli ára, úr 39,7 milljónum dollara í 85 milljónir dollara. Það rekið til þess að AVT02, líftæknihliðstæða við Humira, er komið á markað í sautján löndum. 

Félagið hefur hafið klínískar rannsóknir á þremur fyrirhuguðum líftæknilyfjasamstæðum til viðbótar. Þá hefur verið sótt um markaðsleyfi fyrir annarri líftæknilyfjahliðstæðu. 

 „Rekstur Alvotech gekk vel á árinu 2022. Félagið var skráð á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum og á Íslandi og bættust á annað þúsund hluthafa í hóp eigenda félagsins sem ég vil bjóða velkomna. Það var jafnframt ánægjulegt að sjá mikinn vöxt í tekjum félagsins á milli ára,“ er haft eftir Róberti Wessmann, stjórnarformanni og forstjóra Alvotech í tilkynningu. 

Uppgjör Alvotech verður kynnt af stjórnendum félagsins í beinu streymi á vefnum klukkan 13 í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×