Íslenski boltinn

Áfrýjun Sigurðar skilaði engu

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurður Gísli Bond Snorrason mun ekki spila fótbolta á Íslandi á þessu ári eftir að hafa veðjað á eigin leiki.
Sigurður Gísli Bond Snorrason mun ekki spila fótbolta á Íslandi á þessu ári eftir að hafa veðjað á eigin leiki. Vísir/Egill

Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur staðfest úrskurð um að fótboltamaðurinn Sigurður Gísli Bond Snorrason skuli sæta banni frá knattspyrnu til 15. nóvember, fyrir að veðja á eigin fótboltaleiki.

Veðmálafyrirtækið Pinnacle hafði komið upplýsingum á framfæri við KSÍ um að Sigurður hefði veðjað á mörg hundruð leiki. Þar á meðal veðjaði hann á að minnsta kosti fjóra leiki sem hann tók sjálfur þátt í, með liði Aftureldingar.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ úrskurðaði Sigurð af þessum sökum í bann út keppnistímabilið 2023 en Sigurður áfrýjaði og krafðist þess að málinu yrði vísað frá vegna formgalla og vanreifunar á kæru, en til vara að honum yrði ekki gerð refsing eða þá að refsing yrði stytt. Áfrýjunardómstóllinn gaf lítið fyrir þær kröfur.

Samkvæmt gögnum frá Pinnacle sem KSÍ fékk veðjaði Sigurður í hundruð skipta á leiki á Íslandi, í flestum deildum Íslandsmóts meistaraflokks karla og kvenna, og í 2. flokki. Hann veðjaði sérstaklega mikið á leiki ÍH, Augnabliks, Dalvíkur/Reynis og Aftureldingar, en veðmálin á leiki Aftureldingar virðast aðalástæða dómsins sem er einstakur í sögu íslenskrar knattspyrnu.

Sigurður braut gegn grein 6.2 í lögum KSÍ sem hljóðar svo:

„Aðildarfélag skuldbindur sig til að vinna gegn ólöglegri veðmálastarfsemi og hagræðingu úrslita leikja. Aðilum sem falla undir lög þessi og taka þátt í knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ er óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi, með beinum eða óbeinum hætti, í tengslum við eigin leiki og eigin mót. Bann þetta tekur einnig til miðlunar upplýsinga í þeim tilgangi að hafa áhrif á veðmál og fela í sér fjárhagslegan ávinning.“

Sigurður mátti því ekki veðja á leiki Aftureldingar í Lengjudeild eða Mjólkurbikar karla í fyrra, né á aðra leiki í þeim keppnum eða öðrum sem Afturelding tók þátt í. Það gerði hann hins vegar ítrekað á tímabilinu sem til umfjöllunar var, frá 23. júlí til 4. september í fyrra, eins og fyrr segir.


Tengdar fréttir

Bannaður frá þátt­töku tíma­bilið 2023 eftir að hafa veðjað á eigið lið

Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands hefur dæmt í máli Sigurðar Gísla Bond Snorrasonar. Hann veðjaði á mörg hundruð leiki, þar á meðal sína eigin. „Hefur nefndin úrskurðað fyrrum samningsleikmann Aftureldingar í bann frá allri þátttöku í knattspyrnu keppnistímabilið 2023.“

Heimsku­legt og gert í al­gjöru hugsunar­leysi

Sigurður Gísli Bond Snorrason, fyrrverandi leikmaður Aftureldingar, segir það hafa verið heimskulegt af sér að veðja á sína eigin knattspyrnuleiki. Strangt til tekið vissi hann að þetta væri ólöglegt en hann segist aldrei hafa labbað inn á knattspyrnuvöll með neitt annað hugarfar en að vinna leikinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×