Ný spá um fjölgun nema í framhaldsskólum miðar við að fjöldi þeirra sem muni velja verknám á næstu tíu árum verði kominn upp í 42,5%. Stofnkostnaður við uppbygginguna er 6,6 milljarðar. Hlutur ríkisins nemur 4 milljörðum en sveitarfélaganna 2,6 milljarðar.
Þetta kom fram á morgunverðarfundi Ásmundar Einars Daðasonar mennta-og barnamálaráðherra í morgun. Umfjöllunarefnið var stórtæk uppbygging starfsnáms í framhaldsskólum landsins.
„Kjarni málsins er að nemum í starfsnámi mun fjölga verulega. Á sama tíma mun nemum í bóknámi fækka verulega og við verðum að bregðast við þessari breytingu.“
Ráðherrann byggir þessa fullyrðingu á nýrri mannfjöldaspá Hagstofu íslands en hún gerir ráð fyrir að á næstu tíu árum fari hlutfall nemenda í starfsnámi úr 33,5 % upp í 42,5 %.
Langt undir meðaltali Norðurlandanna
Hlutfall starfsnema í dag er talsvert undir meðaltali Norðurlandanna sem er 45,5 %.
„Við eigum alllangt í land þegar kemur að því að ná meðaltali Norðurlandanna, svo getum við farið til landa eins og Finnlands þar sem á milli 60 og 70% nema fara í starfsnám að loknum grunnskóla.“
Byggja 12-16 þúsund fermetra af verknámshúsnæði
Síðustu ár hefur fjöldi nema í starfsnámi aukist lítillega en þó jafnt og þétt. Til þess að mæta fyrirsjáanlegri aukningu í starfsnámi ætla stjórnvöld að byggja 12-16 þúsund fermetra af húsnæði fyrir verknám á næstu tíu árum.
„Við reiknum með því að framhaldsskólar landsins, sem eru með starfsnám í dag, við reiknum með viðbyggingu við þá skóla. Við erum hér bara formlega í dag að setja þá vinnu á fullt og munum setja mikinn pólitískan kraft í það að aðstoða þessa skóla við að fara í gegnum allt það ferli sem þarf áður en til viðbygginga kemur,“ segir Ásmundur Einar Daðason mennta-og barnamálaráðherra.