Handbolti

Sakaður um að slá á afturenda starfsmanns Vals og segja leikmanni að „fokka sér“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV.
Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV. Vísir/Diego

Mál Sigurðar Bragasonar, þjálfara kvennaliðs ÍBV, er nú á borði aganefndar HSÍ en hann fékk rautt spjald í leik gegn Val um síðustu helgi og er sakaður um „ósæmilega hegðun“ eftir leik.

„Sigurður Bragason þjálfari ÍBV hlaut útilokun með skýrslu vegna mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar eftir leik ÍBV og Vals í Olís deild kvenna þann 25.02.2023. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:10 a). Jafnframt hefur borist erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna ósæmilegrar hegðunar hans eftir leik. Þar sem um sömu atburðarrás er að ræða hefur aganefnd HSÍ ákveðið að fjalla um bæði málin saman,“ segir í skýrslu aganefndar HSÍ.

ÍBV hefur verið gefinn kostur á að skila inn greinargerð vegna erindis framkvæmdastjóra HSÍ. Sömuleiðis hefur verið óskað eftir greinargerð frá Valsmönnum.

Handknattleiksdeild ÍBV vildi ekkert tjá sig um málið þegar eftir því var leitað og Sigurður hefur sömuleiðis ekki svarað símtölum. ÍBV hefur heldur ekkert minnst á málið á miðlum sínum. Valsmenn hafa einnig hafnað því að tjá sig um málið.

Samkvæmt heimildum Vísis er Sigurður sakaður um að hafa slegið á afturenda starfsmanns Vals eftir að leik lauk.

Leikmaður Vals tók því óstinnt upp og lét Sigurð heyra það. Sigurður er svo sakaður um að hafa sagt viðkomandi leikmanni að „fokka sér“ ásamt því sem hann er sagður hafa sett upp löngutöng í andlit leikmannsins.

Væntanlega mun úrskurður í þessu máli liggja fyrir hjá aganefnd næstkomandi þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×