Lífið

Steve Mackey, bassaleikari Pulp, er dáinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðlimir Pulp árið 1996. Steve Mackey er lengst til hægri á myndinni.
Meðlimir Pulp árið 1996. Steve Mackey er lengst til hægri á myndinni. Getty/Stefan Rousseau

Steve Mackey, bassaleikari bresku hljómsveitarinnar Pulp, er dáinn. Hann lést í morgun eftir að hafa varið síðustu þremur mánuðum á sjúkrahúsi.

Mackey gekk til liðs við Pulp á níunda áratug síðustu aldar og spilaði fyrst á þriðju plötu hljómsveitarinnar, sem hét Seperations. Árið 1996 gaf hljómsveitin út plötuna Different Class sem innihélt meðal annars slagara eins og Common People, Something Changes og Disco 2000.

Pulp héldu tónleika í Laugardalshöllinni árið 1996.

Sky News hefur eftir Katie Mackey, eiginkonu Steve, að hans verði sárt saknað. Hann hafi verið hæfileikaríkasti maður sem hún hafi kynnst.

Í skilaboðum sem birt voru á samfélagsmiðlasíðum Pulp segir að Mackey hafi keyrt hlutina áfram. Er nefnt sem dæmi þegar hljómsveitin var á tónleikaferðalagi í Suður-Ameríku árið 2012 og að á frídegi hafi Mackey lagt til að þeir færu í fjallgöngu í Andesfjöllum.

Sú ferð hefði verið töfrum líkust og mun meiri upplifun en að hanga á hótelinu, sem þeir segja líklegt að þeir hefðu gert án Mackey. Þá segir í færslunni að þeir vilji trúa því að Mackey sé aftur í þessum fjöllum í hans næsta ævintýri.

„Góða ferð Steve, vonandi hittumst við aftur einhvern daginn,“ skrifuðu meðlimir Pulp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×