Þjóðarpúls Gallup er netkönnun sem framkvæmd var dagana 1. til 28. febrúar. Heildarúrtaksstærð var 9.517 manns og var þátttökuhlutfall 49,6 prósent.
Sá flokkur sem mælist með mesta fylgið er Samfylkingin með 24 prósent. Næst á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 22,5 prósent en báðir flokkar missa fylgi frá síðustu skoðanakönnun, Samfylkingin 1,3 prósentustig og Sjálfstæðisflokkurinn eitt prósentustig.
Píratar stökkva upp fyrir Framsókn og í þriðja sæti yfir vinsældir stjórnmálaflokka. Þeir mælast með 12,1 prósent fylgi og bæta við sig 1,7 prósentustigum á meðan Framsóknarflokkurinn tapar 0,5 prósentustigi og stendur í 10,8 prósentum.
Viðreisn mælist með 7,7 prósent, Vinstri græn með 6,8 prósent, Flokkur fólksins með 5,6 prósent, Miðflokkurinn með 5,3 prósent og Sósíalistaflokkurinn með fimm prósent.
Þar með er stuðningur við ríkisstjórnarflokkana í 40,1 prósenti. 42 prósent svarenda sögðust styðja ríkisstjórnina og minnkar stuðningurinn um fjögur prósentustig.