Fótbolti

Segist vera með tvo af bestu varnarmönnum heims í sínu liði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronald Araújo og Jules Koundé (lengst til vinstri) héldu sóknarmönnum Real Madrid í skefjum.
Ronald Araújo og Jules Koundé (lengst til vinstri) héldu sóknarmönnum Real Madrid í skefjum. getty/Angel Martinez

Knattspyrnustjóri Barcelona segist vera með tvo af bestu varnarmönnum heims innan sinna raða.

Barcelona sigraði Real Madrid, 0-1, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum spænsku bikarkeppninnar í gær. Varnarleikur Börsunga hefur verið sterkur í vetur, allavega heima fyrir, og Xavi hrósaði tveimur ungum varnarmönnum liðsins eftir leikinn í gær.

„Fyrir mér er [Ronald] Araújo einn besti varnarmaður heims sem og Jules Koundé,“ sagði Xavi. Araujo spilaði sem hægri bakvörður í gær og hafði hemil á Vinícius Júnior.

„Vinícius skapar venjulega 6-7 færi í leik en hann skapaði ekki eitt einasta í dag. Við spiluðum gegn Evrópumeisturunum og leikmennirnir eiga mikið hrós skilið. Ég er ekki sáttur með það sem við gerðum við boltann en aðrir þættir glöddu mig. Við vörðumst mjög vel.“

Úrúgvæski landsliðsmaðurinn Araújo hefur verið í herbúðum Barcelona frá 2018. Koundé, sem er fastamaður í franska landsliðinu, kom frá Sevilla í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×