Íslenski boltinn

Dreymdi um Ísland og mun spila fyrir Blika

Sindri Sverrisson skrifar
Toni Pressley kvaddi Orlando í vetur eftir sjö ára dvöl og hefur heillast af Íslandi eftir að hafa skoðað landið með landsliðskonunni Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og fleirum.
Toni Pressley kvaddi Orlando í vetur eftir sjö ára dvöl og hefur heillast af Íslandi eftir að hafa skoðað landið með landsliðskonunni Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og fleirum. Getty/Instagram@tonideion

Breiðablik hefur fengið til sín miðvörð með afar sannfærandi ferilskrá því hin 33 ára gamla Toni Pressley hefur fengið félagaskipti til félagsins. Samningur hennar gildir út leiktíðina 2023.

Pressley hefur spilað með Orlando Pride í efstu deild Bandaríkjanna mörg undanfarin ár og verið þar liðsfélagi Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur.

„Dreymir enn um þennan stað,“ skrifaði Pressley fyrr á þessu ári með stuttu myndbandi á Instagram frá ferðalagi sínu um Ísland þar sem meðal annars má sjá Gunnhildi og eiginkonu hennar, Erin McLeod, taka á móti henni á Keflavíkurflugvelli.

Nú er Pressley svo búin að fá félagaskipti í íslenskt félag en þó ekki Stjörnuna eins og þær Gunnhildur og McLeod, heldur til Breiðabliks.

Ætla má að um afar góðan liðsstyrk sé að ræða fyrir Blika en Pressley lék 17 deildarleiki fyrir Orlando Pride á síðustu leiktíð, í einni albestu landsdeild heims, og skoraði eitt mark.

Athygli vakti þegar Pressley trúlofaðist Mörtu, þáverandi samherja sínum hjá Orlando Pride og sennilega þekktustu knattspyrnukonu sögunnar, í ársbyrjun 2021 en sambandi þeirra er lokið.

Karen María heim til Akureyrar

Í gær var greint frá því að miðjumaðurinn Karen María Sigurgeirsdóttir væri farin frá Breiðabliki aftur heim til Þórs/KA, að láni. 

Karen María er uppalin á Akureyri og lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki með Þór/KA árið 2017, sama ár og liðið varð Íslandsmeistari. 

Hún gekk í raðir Breiðabliks haustið 2021 þegar liðið var á leið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og kom við sögu í 17 deildarleikjum fyrir Blika á síðustu leiktíð, þegar liðið varð í 3. sæti Bestu deildarinnar og 2. sæti Mjólkurbikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×