Erlent

Glitter sendur aftur í fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Garry Glitter er dæmdur barnaníðingur og fyrrverandi poppstjarna.
Garry Glitter er dæmdur barnaníðingur og fyrrverandi poppstjarna. Vísir/EPA

Barnaníðingurinn Gary Glitter var kallaður aftur til afplánunar í fangelsi rétt rúmum mánuði eftir að hann var látinn laus til reynslu. Bresk fangelsisyfirvöld segja að hann hafi rofið skilmála lausnarinnar.

Glitter hafði afplánað helming sextán ára fangelsisdóms sem hann hlaut fyrir að misnota þrjár stúlkur kynferðislega í febrúar. Honum var þá meðal annars gert að ganga með GPS-merki svo hægt væri að fylgjast með ferðum hans, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Fangelsisyfirvöld segja að þau hiki ekki við að kalla menn aftur inn til afplánunar ef þeir brjóti gegn þeim skilyrðum sem þeim er sett til að vernda almenning.

Glitter, sem heitir réttu nafni Paul Gadd, er 79 ára gamall. Hann naut mikillar hylli sem poppstjarna á áttunda áratug síðustu aldar.

Stjarna hans féll hratt þegar hann játaði sig sekan um vörslu á þúsundum barnaníðsmynda og var dæmdur í fangelsi árið 1999. Honum var vísað frá Kambódíu í skugga ásakan um kynferðisofbeldi árið 2022 og fjórum árum síðar var hann dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að misnota tvær ungar stúlkur í Víetnam.

Fangelsisdóminn sem hann þarf nú að halda áfram að afplána hlaut Glitter fyrir kynferðisbrot gegn ungum stúlkum árið 2015. Brotin framdi hann á hátindi ferilsins þegar stúlkurnar voru tólf og þrettán ára gamlar. Yngsta stúlkan var tíu ára gömul þegar Glitter reyndi að nauðga henni árið 1975.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×