Erlent

Fimm særðir eftir skot­á­rás manns á Græn­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Narsaq er að finna í sveitarfélaginu Kujalleq og telja íbúar bæjarins um 1.500.
Narsaq er að finna í sveitarfélaginu Kujalleq og telja íbúar bæjarins um 1.500. Getty

Fimm eru særðir eftir að maður hóf skotárás við þyrluflugvöllinn í Narsaq á suðvesturströnd Grænlands í gær.

Lögregla segir enginn vera í lífshættu, en tveir urðu fyrir skoti og þá urðu þrír fyrir flís úr byssukúlum.

Í frétt Sermitsiaq.AG segir að tilkynnt hafi verið um mann sem væri að skjóta á fólk við þyrluflugvöllinn um klukkan 17 að staðartíma í gær.

Lögreglumaðurinn Brian Thomsen segir í samtali við fjölmiðilinn að árásarmaðurinn hafi verið handtekinn, að málið sé til rannsóknar og að ekki sé hægt að greina frá meiru á þessu stigi málsins.

Þyrla Air Greenland var á þyrluflugvellinum þegar árásin var gerð og segir talsmaður flugfélagsins að neyðaráætlun félagsins hafi verið virkjuð.

Narsaq er að finna í sveitarfélaginu Kujalleq og telja íbúar bæjarins um 1.500.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×