Sport

Trans konur fá ekki að keppa í kvennaflokki frjálsra íþrótta

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lávarður Sebastian Coe er formaður Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins.
Lávarður Sebastian Coe er formaður Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins. Vísir/Getty

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hefur tilkynnt að trans konur fái ekki að keppa í kvennaflokki í mótum á vegum sambandsins. 

Formaður sambandsins, Lávarður Sebastian Coe, segir í samtali við BBC að engin trans kona sem farið hefur í gegnum kynþroskaskeið sem karlmaður fái keppnisleyfi í kvennaflokki. Gildir ákvörðunin um alþjóðleg mót sem telja til stiga á heimslista frjálsíþróttafólks. Ákvörðunin gildir frá og með 31. mars næstkomandi.

Settur verður á fót vinnuhópur sem kanna á enn betur hvernig best sé að haga málum varðandi þátttökurétt trans kvenna.

„Við erum ekki að segja að þetta verði svona að eilífu,“ segir Coe og bætti við að ákvörðunin væri tekin með það að leiðarljósi að vernda keppnisflokk kvenna á mótum.

Á fundi stjórnar sambandsins var einnig kosið um að leyfilegt magn testósterons, í blóði þeirra íþróttamanna sem líffræðilega eru með hærra magn testósterons, skyldi lækkað. Hlaupakonan Caster Semenya er ein þeirra en hún hefur meðal annars þurft að taka bælandi lyf á ferli sínum.

Leyfilegt magn verður nú 2,5 nanómólar í hverjum lítra en áður var miðað við fimm nanómóla. Íþróttafólk þarf að vera undir þessu mörkum í tvö ár fyrir keppni og gildir það um allar keppnisgreinar. Áður giltu þessar reglur einungis um það íþróttafólk sem keppti í greinum þar sem hlaupnir voru 400 metrar eða lengra.

Bráðabirgðaákvæði verða kynnt fyrir það íþróttafólk sem nú þegar keppir samkvæmt eldri viðmiðum og verður það að vera undir mörkunum í hálft ár áður en það færi keppnisleyfi.

„Svona ákvarðanir eru alltaf erfiðar þegar um er að ræða mismunandi skoðanir tveggja ólíkra hópa. Við erum ennþá á þeirri skoðun að við verðum að sýna sanngirni við íþróttakonur umfram allt annað.“

Fréttin hefur verið uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×