Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segir að 1944-réttirnir séu eitt sterkasta vörumerkið á markaðnum. „En það er eins og með tískubylgjurnar – maður er ekki alltaf í sömu fötunum. Það er sama með svona línu, það þarf að uppfæra eftir því hvernig straumarnir eru.“
Í sölu frá 1993
Steinþór segir að nú sé verið að breyta umbúðum réttanna í fjórða eða fimmta sinn frá upphafi en 1944-réttirnir hafa verið á markaðnum frá árinu 1993. Þeir höfðu þá verið þróaðir í framhaldi af hinum svokölluðu Rúlluuréttum sem höfðu verið í sölu fáeinum árum áður.

„Nú var verið að skipta línunni litalega aðeins í sundur – annars vegar hefðbundna rétti og svo það sem mætti kalla nýmóðins rétti sem höfði kannski meira til yngra fólks. Þetta er til að hjálpa fólki að velja,“ segir Steinþór og bendir á að framvegis upplýsingar um næringargildi réttanna meira sýnilegt og sömuleiðis neytendum gert auðveldara að endurvinna umbúðirnar.
Skilja ekki til hvers sé vísað
Steinþór segir að samhliða breyttu útliti nú þá hafi verið ákveðið að hætta notkun á slagorði réttanna – Matur fyrir sjálfstæða Íslendinga. Í markaðskönnunum fyrirtækisins hafi komið í ljós að sífellt fleiri viti einfaldlega ekki til hvers sé verið að vísa.
„Þetta er náttúrulega orðaleikur. 1944 er árið þar sem Ísland varð sjálfstætt og þannig varð þetta slagorð til á sínum tíma – „Matur fyrir sjálfstæða Íslendinga“. Sem þýðir náttúrulega fyrir alla Íslendinga, við erum öll hluti af sjálfstæðri þjóð,“ segir Steinþór.

Segir eitthvað til um sögukennslu?
Hann segir að slagorðið hafi sömuleiðis verið vísun í nýjan lífstíl. „Fólk er í tómstundum, íþróttum og svo framvegis og borðar ekki allt á sama tíma. Þetta var því vísun í að vera sjálfstæður – maður er ekki bundinn af því að hafa matinn alltaf klukkan sjö. Það var hugmyndin á bak við þetta.
En svo kemur í ljós að æ fleiri voru ekki að skilja hvað þetta slagorð þýddi, að þetta væri vísun í ártalið sem Ísland varð sjálfstætt. Ég veit ekki hvort það segi kannski eitthvað til um sögukennslu nú til dags,“ segir Steinþór.