Innlent

Rútur í veseni á Fjarðar­heiði bætast við álag á Seyð­firðinga

Bjarki Sigurðsson og Kristján Már Unnarsson skrifa
Guðjón Már Jónsson, yfirmaður í vettvangsstjórn á Seyðisfirði.
Guðjón Már Jónsson, yfirmaður í vettvangsstjórn á Seyðisfirði. Vísir/Sigurjón

Norræna kom til hafnar á Seyðisfirði fyrr í dag þrátt fyrir að búið sé að rýma fjölda húsa í bænum. Úr skipinu kom fjöldi fólksbíla og rúta sem sumar hverjar lentu í vandræðum á Fjarðarheiði. 

Að minnsta kosti eitt snjóflóð hefur fallið á Seyðisfjörð síðasta sólarhringinn og féll það á yfirgefna byggingu fyrir utan bæinn. Búið er að rýma fjölda húsa í bænum og segir Guðjón Már Jónsson, yfirmaður í vettvangsstjórn á Seyðisfirði, að rýmingin nái til um það bil sjötíu manns. Hann segir stöðuna vera óbreytta hvað varðar rýmingu í bænum. 

„Veðurstofan er að skoða betur fjallið. Þeir eru að rýna í þetta en þeir skoða þetta. Ástandið er þannig að það lítur út fyrir að það verður ekki neinni rýmingu aflétt,“ segir Guðjón í samtali við fréttastofu. 

Fjarðarheiði, heiðin milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða, hefur verið opnuð fyrir umferð. Fyrst voru það björgunaraðilar sem fengu að fara yfir heiðina og svo almenningur. 

Þá kom Norræna til hafnar í dag með fjölda ferðamanna sem ýmist voru í rútum eða með fólksbifreiðar. Guðjón segir að einhverjar rútur hafi nú þegar lent í vandræðum á heiðinni. 

„Það leggst bara ofan á þetta. Þetta sýnir það enn og aftur að göng eru miklu betri,“ segir Guðjón. 

Rúta í vandræðum á Fjarðarheiði fyrr í dag.Vísir/Sigurjón



Fleiri fréttir

Sjá meira


×