Íslenski boltinn

Albert um FH: „Held að Heimir sé ekki alveg sannfærður um varnarleikinn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson spilar væntanlega aðallega sem miðvörður hjá FH í sumar.
Eggert Gunnþór Jónsson spilar væntanlega aðallega sem miðvörður hjá FH í sumar. vísir/diego

Albert Ingason telur að þrátt fyrir endurkomu Heimis Guðjónssonar séu væntingar FH fyrir þetta tímabil nokkuð hóflegar. Liðinu er spáð 7. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports.

„Maður er búinn að finna góðan anda í kringum FH-liðið þetta undirbúningstímabil en ég hefði ábyggilega sagt það nákvæmlega sama ef þú hefðir spurt mig í fyrra. Þá var góður andi í kringum FH,“ sagði Albert sem er einn sérfræðinga Stöðvar 2 Sports um Bestu deildina.

FH var hársbreidd frá því að falla á síðasta tímabili. Til að koma FH-skútunni aftur á réttan kjöl var hóað í Heimi sem var áður hjá FH á árunum 2000-17.

„Heimkoma Heimis breytir miklu. Hann var þekktur fyrir að berjast í efri hlutanum en hvernig þeir tala út á við núna er markmiðið að vera meðal sex efstu liða. Ég held að það sé raunhæft. Þetta er lið sem hélt sér bara uppi á markatölu í fyrra,“ sagði Albert sem hefur áhyggjur af varnarleik FH í sumar.

Klippa: Albert um FH

„Þeir fengu hafsent í Dani Hatakka og Sindra [Kristin Ólafsson] í markið. Það bætir liðið töluvert en ég held samt að Heimir sé ekki alveg sannfærður um varnarleikinn þegar maður hlustar á viðtöl við hann. Manni finnst hafsentastaðan enn ekki nógu góð.“

Fyrsti leikur FH í Bestu deildinni er gegn Fram mánudaginn 10. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×