Erlent

Frans páfi lagður inn á sjúkrahús

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Páfi kom síðast opinberlega fram í gær á Péturstorginu í Róm og þá sást greinilega að hann var þjáður. Skömmu síðar var hann lagður inn á sjúkrahús.
Páfi kom síðast opinberlega fram í gær á Péturstorginu í Róm og þá sást greinilega að hann var þjáður. Skömmu síðar var hann lagður inn á sjúkrahús. AP Photo/Alessandra Tarantino

Frans páfi hefur verið lagður inn á sjúkrahús í Róm vegna öndunarfærasýkingar. Páfinn, sem er orðinn 86 ára gamall er þó ekki með Covid að sögn Vatikansins.

Í tilkynningu segir að hann verði á spítala í nokkra daga í viðeigandi meðferð. Hluti annars lunga páfa var fjarlægður  þegar hann var ungur maður sökum sýkingar. 

Veikindin koma upp á versta tíma fyrir páfa en páskarnir eru einn annasamasti tími ársins fyrir leiðtoga kaþólsku kirkjunnar. Til stendur að páfi haldi til að mynda messu á pálmasunnudag um næstu helgi en óvíst er hvort af því geti orðið. Þá er einnig búist við honum í opinbera heimsókn til Ungverjalands í lok aprílmánaðar.

Frans páfi hefur notast við hjólastól síðustu mánuði vegna verkja í hné og hann gekkst einnig undir aðgerð á ristli árið 2021 og í janúar var greint frá því að vandamálið hafi tekið sig upp að nýju. Hann hefur þrátt fyrir veikindin verið á faraldsfæti og heimsótti til að mynda Lýðveldið Kongó og Suður-Súdan.

Í janúar jarðsetti Frans einnig fyrirennara sinn Benedikt páfa, en hann var fyrsti páfinn í aldaraðið til að segja af sér sökum heilsubrests en yfirleitt hafa páfar Vatikansins látist í embætti. Frans hefur nokkrum sinnum minnst á að hann kunni að gera slíkt hið sama. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×