Íslenski boltinn

FH dæmt í fé­laga­skipta­bann ef fé­lagið borgar Mor­ten Beck ekki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Morten Beck Guldsmed lék með FH á árunum 2019-2021.
Morten Beck Guldsmed lék með FH á árunum 2019-2021.

Ef FH greiðir Morten Beck Guldsmed ekki það sem hann telur sig eiga inni hjá félaginu innan þrjátíu daga verður það dæmt í félagaskiptabann. FH fékk einnig 150 þúsund króna sekt.

Í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar, sem lesa má hér, segir að FH skuli sæta banni í eitt félagaskiptatímabil ef félagið gerir ekki upp við Morten Beck innan mánaðar. FH hefur þrjá daga til að áfrýja úrskurðinum til áfrýjunardómstóls KSÍ.

Hjörvar Hafliðason birti úrskurðarorð aga- og úrskurðarnefndar á Twitter síðu Dr. Football. Þar segir: „Knattspyrnudeild FH skal sæta sekt að upphæð kr. 150.000,-. Knattspyrnulið FH í meistaraflokki karla skal sæta félagaskiptabann í eitt félagaskiptatímabil ef ekki er gengið frá uppgjöri í samræmi við niðurstöðu saminga- og félagaskiptanefndar frá 10. ágúst 2022 innan 30 daga frá því að úrskurður þessi er kveðinn upp.“

Nái FH ekki að gera upp við Morten Beck á næstu 30 dögum virðist því ljóst að FH getur ekki fengið til sín leikmenn í félagsskiptaglugganum í sumar.

Í samtali við Vísi um miðjan mars sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður Mortens Beck, að krafa leikmannsins næmi alls rúmlega 24,3 milljónum króna, sem skiptist í launakröfu upp á 17,5 milljónir og dráttarvexti, auk lögmannskostnaðar upp á tæpa milljón.

Forsaga málsins er sú að Morten Beck var leikmaður FH á árunum 2019-2021. Hann fékk laun sín greidd sem verktaki en taldi sig hafa gert launþegasamning við FH-inga, og að þar með hefði knattspyrnudeild FH átt að bera ábyrgð á greiðslu skatta og annarra launatengdra gjalda.

Samninga- og félagaskiptanefnd KSÍ úrskurðaði Morten Beck í vil í ágúst síðastliðnum og í kjölfarið freistaði Morten Beck þess að semja við FH um greiðslur. Lögmaður hans fundaði með fulltrúum FH og lögmanni félagsins í janúar til að ná samkomulagi, þar sem að í úrskurði samninga- og félagaskiptanefndar var engin afstaða tekin til þess hve háa upphæð Morten Beck ætti inni. Sá fundur skilaði hins vegar engri niðurstöðu og á endanum kærði Daninn FH til aga- og úrskurðarnefndar, og krafðist sektar og félagaskiptabanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×