Innlent

Engar fregnir borist af flóðum í nótt

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ofanflóðasérfræðingur telur hættuna af stórum snjóflóðum liðna hjá á Austfjörðum en varar áfram við krapaflóðum og skriðuföllum. 
Ofanflóðasérfræðingur telur hættuna af stórum snjóflóðum liðna hjá á Austfjörðum en varar áfram við krapaflóðum og skriðuföllum.  Landsbjörg

Appelsínugul viðvörun er enn í gildi á Austfjörðum vegna mikillar rigningar og asahláku sunnantil á svæðinu en norðantil er varað við slyddu eða snjókomu.

Að sögn Veðurfræðings hefur spáin gengið eftir í nótt og og aðeins bætt í nú í morgun en búist er við að það taki að draga úr um hádegi. Ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að engar fregnir hafi borist af flóðum í nótt og gera menn ráð fyrir að hættan á stórum snjóflóðum eins og þeim sem féllu í Drangagili í Neskaupsstað sé nú liðin en áfram verði að gera ráð fyrir hættunni á minni krapaflóðum og skriðum.

„Íbúar í húsum nærri farvegum með sögu um krapaflóð eru hvattir til aðgæslu og að dvelja ekki í kjallaraherbergjum með gluggum sem vísa upp í hlíðina á meðan rigningin gengur yfir,“ segir í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Austurlandi frá því í gær.

Seint í gærkvöldi barst síðan tilkynning um tvær nýjar spýjur við Hvalnesskriður sem féllu yfir veginn og lokuðu honum.

Vegurinn um Vatnsskarð eystra er ófær samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, þá er lokað um Fagradal og Fjarðarheiði eins og stendur.

Appelsínugula viðvörunin er til klukkan níu en gul verður í gildi eftir það út daginn. Óvissustig veggna snjóflóðahættu er í gildi á öllum austfjörðum en hættustig í Neskaupstað, Seyðisfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði.


Tengdar fréttir

Frekari rýmingar í Neskaupsstað bætast við

Veðurstofan hefur ákveðið frekari rýmingu í Neskaupsstað vegna ofanflóðahættu frá og með klukkan þrjú í dag. Fyrr í dag var ákveðið að grípa til rýminga á Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði. Rýmingar eru sömuleiðis í gildi á Seyðisfirði og Eskifirði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×