Innlent

Æðruleysi fyrsta orðið sem kom upp í huga Katrínar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðlaugur Þór og Katrín ræða hér við fólk í Neskaupstað.
Guðlaugur Þór og Katrín ræða hér við fólk í Neskaupstað. Aðsend

Forsætisráðherra og umhverfisráðherra fóru til Neskaupstaðar í dag og ræddu við íbúa sem lentu í því að fá snjóflóð á heimili sín á mánudag. Forsætisráðherra segir mikið mildi að enginn hafi týnt lífi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, voru í Neskaupstað í dag, en á mánudag féllu snjóflóð á bæinn. Katrín segir ljóst af ummerkjunum eftir flóðin að þau hafi verið afar kröftug.

„Og það er ótrúleg mildi að ekki hafi farið verr, það er að segja að enginn hafi týnt lífi. Því ummerkin eru gríðarleg,“ sagði Katrín, sem var enn stödd á Neskaupstað þegar fréttastofa ræddi við hana.

Ráðherrarnir ræddu meðal annars við fólk sem fékk flóðin á heimili sín, með tilheyrandi tjóni.

„Að sjálfsögðu reynir þetta alveg gríðarlega á fólk en um leið vil ég segja það, því við hittum viðbragðsaðila og fórum yfir hvernig þetta hefur gengið, að þetta viðbragð er algjörlega aðdáunarvert. Hvernig brugðist var við og hversu hratt var brugðist var við, og hvernig samfélagið hefur tekið höndum saman í kjölfarið.“

Ofanflóðavarnir hafi skipt miklu

Íbúar Neskaupstaðar hafi sýnt mikinn styrk í viðbrögðum sínum.

„Ég myndi nú segja að æðruleysi hafi verið orðið sem kom fyrst upp í hugann hjá mér. Fólk tekur þessu af æðruleysi. En um leið liggur það fyrir að mörgum er illa brugðið.“

Töluvert hafi verið rætt um ofanflóðavarnargarð sem fyrirhugaður er í Neskaupstað, en þar eru þrír garðar fyrir.

„Hann er kominn töluvert langt, undirbúningurinn, og nú munum við bara fara yfir þessar áætlanir og sjá hvað er hægt að gera. Það tekur síðan tíma að byggja þetta mannvirki, en það er líka alveg ljóst að þessir garðar sem fyrir eru hafa skipt töluverðu máli til að verja byggð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×