Íslenski boltinn

Keflavík að landa framherja frá KR

Sindri Sverrisson skrifar
Stefan Alexander Ljubicic í leik með KR gegn ÍA síðasta sumar.
Stefan Alexander Ljubicic í leik með KR gegn ÍA síðasta sumar. vísir/Diego

Keflvíkingar eru langt komnir í viðræðum við KR-inga um að fá framherjann Stefan Alexander Ljubicic.

Þetta staðfesti Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Vísi í dag.

Stefan hefur þegar spilað æfingaleik með Keflvíkingum og að sögn Sigurðar standa vonir til þess að samkomulag náist fljótlega um að hann spili í Bítlabænum í sumar.

Stefan er samningsbundinn KR út keppnistímabilið 2025 en hann kom til félagsins frá HK fyrir síðasta tímabil. Hann skoraði hins vegar aðeins tvö mörk í 18 leikjum í Bestu deildinni í fyrra, eftir að hafa skorað sex mörk í 21 leik fyrir HK-inga tímabilið áður.

Stefan, sem er 23 ára, er uppalinn hjá Keflavík en fór ungur að árum frá félaginu til Brighton á Englandi. Hann var á mála hjá Brighton til ársins 2019 og lék með U18- og U23-liðum félagsins, en sneri svo heim til Íslands og lék með Grindavík áður en hann fór svo til HK ári síðar. Hann hefur alls leikið 62 leiki í efstu deild hér á landi og skorað í þeim tíu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×