Fótbolti

„Ekki nógu góður leikur hjá okkur“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari. VÍSIR/VILHELM

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, var ekki ánægður með frammistöðu liðsins gegn Nýja-Sjálandi í vináttuleik í Tyrklandi í dag.

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli þar sem Dagný Brynjarsdóttir náði forystunni fyrir Ísland eftir tæplega hálftíma leik en þær nýsjálensku voru fljótar að svara og jafna metin á 35.mínútu.

„Ekki nógu góðu leikur hjá okkur. Fyrri hálfleikur var ekki góður hjá okkur. Mér fannst við vera undir í baráttu og öllum návígjum. Ekkert sérstakur fyrri hálfleikur en við komum ágætlega út í síðari háfleik og spilum ágætan 20-25 mínútna kafla áður en þetta dettur niður í lokin hjá okkur. Heilt yfir ekkert sérstakur leikur,“ sagði Þorsteinn í leikslok.

Ísland mætir Sviss á þriðjudag og vonast þjálfarinn eftir betri frammistöðu í þeim leik.

„Við þurfum að bæta okkur í ákveðnum hlutum. Fáum reyndar tvö dauðafæri í þessum leik en það þarf að nýta þau og refsa andstæðingunum þegar maður fær góð færi. Það tókst ekki í dag.“

Telma Ívarsdóttir lék allan leikinn í marki íslenska liðsins og var Þorsteinn spurður út í þá ákvörðun.

„Í æfingaleikjum skiptum við alltaf mínútum á milli markmanna. Það er ekkert flóknara en það. Ég hef alltaf gert það og mun líklega halda áfram að gera það.“


Tengdar fréttir

Aftur gerði Dagný Nýja-Sjálandi grikk

Dagný Brynjarsdóttir skoraði mark íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta þegar liðið gerði 1-1 jafntefli í vináttulandsleik gegn Nýja-Sjálandi sem spilaður var í Atsu í Tyrklandi í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×