Becker var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að fela jafnvirði 2,5 milljón punda í eignum fyrir skattayfirvöldum. Hann afplánaði átta mánuði og var svo vísað úr landi.
„Sá sem segir að fangelsislífið sé ekki erfitt er að ljúga,“ sagði Becker í samtali við BBC Radio 5. „Þetta var mjög harkalegt... allt önnur upplifun en þú sérð í bíómyndum.. en þú hefur heyrt.“
Að sögn Becker þurftu fangarnir að berjast fyrir lífi sínu á hverjum einasta degi. Það gagnaðist honum ekkert að vera þekkt tennisstjarna. Með honum í fangelsinu hefðu verið morðingjar, nauðgarar, dópsalar; hættulegir glæpamenn.
Becker segist hafa gripið til þess ráðs að umkringja sig með „hörðum strákum“.
Fangelsisvistin hefði gert hann sterkari.
Í viðtalinu sagði Becker ekkert geta undirbúið hann undir það að sigra Wimbledon árið 1985, þegar hann var aðeins 17 ára gamall. Frægðin og ríkidæmið hefðu verið „mjög ný“ reynsla.
Becker má ekki ferðast aftur til Bretlands fyrr en á næsta ári og segist mjög gjarnan vilja taka aftur við að lýsa beint frá Wimbledon fyrir BBC.