Lífið

Leikarinn Michael Lerner látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Michael Lerner átti langan og farsælan feril í Hollywood sem aukaleikari.
Michael Lerner átti langan og farsælan feril í Hollywood sem aukaleikari. Getty/Scott Gries

Leikarinn Michael Lerner er látinn 81 árs að aldri. Lerner átti farsælan feril í Hollywood sem spannaði rúma hálfa öld og innihélt myndir á borð við Elf, Godzilla, Barton Fink og X-Men: Days of Future Past.

Frændi leikarans, Sam Lerner, greindi frá því á Instagram að Lerner hefði dáið á laugardagskvöld en ekkert meira er vitað um andlátið.

Lerner fæddist 22. júní 1941 í Brooklyn í New York og var alinn upp í Brooklyn og Ohio af sjómanni og antíksala. Lerner hóf leiklistarferil sinn á seinni hluta sjöunda áratugarins í leikhúsum San Francisco. Það var síðan á áttunda áratugnum sem hann fékk aukahlutverk í sjónvarpi, í þáttum á borð við MASH og The Brady Bunch.

Árið 1970 lék hann sitt fyrsta kvikmyndahlutverk í myndinni Alex in Wonderland. Það var upphafið af fimmtíu ára ferli Lerner í kvikmyndum. Hans þekktustu hlutverk eru eflaust fúli yfirmaðurinn Fulton Greenway í jólamyndinni Elf frá 2004 og kvikmyndaframleiðandinn Jack Lipnick í Barton Fink frá 1991. Í myndbandinu hér fyrir ofan má sjá svakalegan mónológ Lerner í hlutverki Lipnick.

Lerner lék einnig í fjölda vinsælla sjónvarpsþátta á borð við Glee, Law and Order: Special Victims Unit og Entourage.

Hér fyrir neðan má sjá hjartnæma kveðju sem Sam Lerner skrifaði um frænda sinn við myndaseríu af honum á Instagram. Á nokkrum myndanna má sjá Lerner með vindil en hann var mikill vindlakall. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.