Fótbolti

Ætla að greiða hæsta fé sem greitt hefur verið fyrir fótboltakonu

Sindri Sverrisson skrifar
Ada Hegerberg hefur raðað inn mörkum fyrir Lyon í gegnum árin en samkvæmt Marca er hún reiðubúin að yfirgefa félagið í sumar.
Ada Hegerberg hefur raðað inn mörkum fyrir Lyon í gegnum árin en samkvæmt Marca er hún reiðubúin að yfirgefa félagið í sumar. Getty

Barcelona ætlar að freista þess að fá til sín norsku knattspyrnustjörnuna Ödu Hegerberg í sumar og er reiðubúið að greiða Lyon metfé og jafnframt að gera Hegerberg að einni launahæstu knattspyrnukonu heims.

Hegerberg er 27 ára og vann Gullknöttinn árið 2018. Hún hefur verið leikmaður Lyon frá árinu 2014 og skorað 212 mörk í 198 leikjum fyrir franska félagið sem er það sigursælasta í Meistaradeild Evrópu. Hún hefur tekið þátt í sex af átta Evrópumeistaratitlum félagsins.

Samkvæmt spænska blaðinu Marca ætlar Barcelona að reyna að kaupa Hegerberg í sumar en hún er með samning við Lyon sem gildir til sumarsins 2024. Börsungar eru staðráðnir í að fá Hegerberg og vilja helst að það takist áður en heimsmeistaramótið hefst í júlí.

Auk þess að gera Hegerberg að einum launahæsta leikmanni heims er ljóst að Barcelona þarf að borga meira en 400.000 evrur, jafnvirði 60 milljóna króna, fyrir þá norsku. Það er metupphæðin sem Barcelona greiddi Manchester City til að fá Keiru Walsh síðasta haust, skömmu eftir að hún varð Evrópumeistari með enska landsliðinu.

Samkvæmt Marca settu forráðamenn Barcelona sig fyrst í samband við Hegerberg eftir tap Barcelona gegn Lyon í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra. Þá mun Joan Laporta, forseti Barcelona, hafa hitt Hegerberg á Ballon d‘Or verðlaunahófinu í október, og segir Marca að hún hafi áhuga á að yfirgefa Lyon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×