Eini sigur Kórdrengja í vetur kom gegn U-liði Vals að Hlíðarenda þann 25. febrúar, sem þeir unnu með minnsta mun, 27-26. Hinum 17 leikjum sínum töpuðu þeir, með 150 mörk í mínus í þeim leikjum.
Kórdrengir eru hins vegar aðeins eitt fimm liða í deildinni sem ekki eru U-lið, ungmennalið félaga í efstu deild. U-lið Vals, KA, Hauka, Fram og Selfoss eru í deildinni ásamt HK, Víkingi, Fjölni, Þór og liði Kórdrengja.
Fyrirkomulaginu á deildinni er þannig háttað að HK, sem vann deildina, fer upp í Olís-deildina. Næstu fjögur lið sem mega spila í efstu deild spila svo í umspili um hitt sætið í deild þeirra bestu. U-liðin mega ekki fara upp um deild þar sem þeir mega ekki leika í sömu deild og aðallið síns félags.
Því munu Kórdrengir mæta Víkingi í undanúrslitum umspilsins á meðan Fjölnir, sem lenti í fjórða sæti deildarinnar, mætir Þór, sem var í næstneðsta sæti.
Vilji svo ólíklega til að Kórdrengir leggi Víking að velli í undanúrslitum og svo annað hvort Fjölni eða Þór í úrslitum munu þeir því spila í Olís-deildinni að ári, þrátt fyrir að hafa unnið aðeins einn leik í deildarkeppninni.