Í fréttum Stöðvar 2 voru sýndar drónamyndir sem Guðjón Halldórsson tók af snjómokstrinum í fyrradag. Frá Brekkuþorpi og út á Dalatanga liggur nítján kílómetra vegslóði en á myndunum sést hversvegna hann er búinn að vera ófær frá því í febrúar.

Nokkur snjóflóð loka veginum og hefur bóndinn á Brekku, Sigfús Vilhjálmsson, undanfarna daga verið að moka sig í gegnum þau á traktorsgröfu til að opna hann. Hann mældi stærsta snjóflóðið og reyndist það þrjúhundruð metra breitt og á tvöhundruð metra kafla milli eins og hálfs og tveggja metra þykkt.
Við tökur þáttarins Um land allt, sem við sýndum í fyrra, hittum við Sigfús við gröfuna á hlaðinu á Brekku en hún er öflugasta vinnuvél Mjófirðinga. Hann segist vera áttræður karl á 33 ára gamalli gröfu og hvorugt bili.
„Ég held að hún sé ’90 módel. Hún er svo gömul að hún getur ekki bilað,“ segir Sigfús og hlær.
„Þetta er nú bara til að hreinsa götur þorpsins og veginn út á Dalatanga. Heiðin aftur á móti, þá er snjóblásari frá Vegagerðinni,“ segir Brekkubóndinn.

Dalatangi er austasta býli Íslands og hér búa mæðgurnar Marsibil Erlendsdóttir og Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir. Einnig hefur dvalið hjá þeim í vetur nítján ára piltur, barnabarn Marsibil og frændi Aðalheiðar.
Frá því skömmu fyrir jól hafa þau verið meira og minna innilokuð, ef undan eru skildir nokkrir dagar í febrúar, þegar Sigfúsi tókst að opna, en þá þurfti að koma konu til að telja fóstrin í ánum á Dalatanga.

Þann 23. janúar tókst þó Sævari Egilssyni á Mjóafjarðarferjunni Björgvin að skutla til þeirra vistum. Það tókst einnig varðskipsmönnum þann 3. apríl.

Þær mæðgur kvarta þó ekki, segjast hafa næg matvæli í frystikistum, en viðurkenna að gott sé að fá ferskt grænmeti og ávexti, ost og rjóma þegar fæðið sé orðið einhæft.
Sigús segir það hafa tekið sig tvo daga að moka í gegnum stærsta snjóflóðið. Núna séu þrjú minni eftir og vonast hann til að vegurinn út á Dalatanga opnist á morgun.

Einangrun Mjófirðinga landleiðina rofnar þó ekki fyrr en Mjóafjarðarheiði verður mokuð, kannski í kringum næstu mánaðamót, að sögn Sigfúsar, en hún hefur verið ófær frá því seinnipartinn í nóvember.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: