Innlent

Ríkið samdi við hjúkrunar­fræðinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn hefst á laugardag.
Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn hefst á laugardag. Vísir/Vilhelm

Fulltrúar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og íslenska ríkisins skrifuðu undir nýjan kjarasamninga í dag. Samningurinn er sagður tryggja launahækkanir og kjarabætur fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu næsta árið.

Líkt og aðrir kjarasamningar sem skrifað hefur verið undir nýlega er samningurinn til tólf mánaða. Hann gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024. 

Í tilkynningu á vef Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga kemur fram að samningurinn sé í takt við áherslur sem félagið lagði upp með við upphaf viðræðna við ríkið. Hann feli í sér breytingar á vaktaálagi og vaktahvata auk verkáætlunar um atriði sem verða tekin til sérstakrar skoðunar á samningstímanum. Þar á meðal eru vinnutími í dagvinnu og vaktavinnu, endurskoðun veikindakafla samningsins og fleira.

Rafræn atkvæðagreiðsla fer fram um samninginn og hefst hún á hádegi laugardaginn 15. apríl. Henni lýkur á hádegi mánudaginn 24. apríl. Aðeins hjúkrunarfræðingar með fulla aðild að félaginu geta greitt atkvæði.

Atkvæðagreiðsla um nýgerðan kjarasamning hjúkrunarfræðinga við Reykjavíkurborg hefst á á föstudag, 14. apríl. Samningaviðræður við önnur sveitarfélög og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu standa enn yfir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×