„Strákarnir eru búnir að hugsa hvað þeir geta gert til þess að hjálpa honum og fá hann út að leika aftur. Þess vegna kemur þessi áheitasöfnun til sem fer fram um helgina,“ segir Sigurður Ólafsson, sem er í foreldrafélagi Brettafélags Hafnarfjarðar, í viðtali um söfnunina í Bítinu á Bylgjunni.
Sigurður bendir á að Elís hafi verið með allan hlífðarbúnað er hann slasaðist. „Slysin klárlega gerast og þetta var akkúrat dæmi um það,“ segir Sigurður og útskýrir hvað kom fyrir.
„Þetta er einn af fremstu hjólurum landsins. Það eru skipulögð mót á vegum Hjólreiðasambandsins og í fyrra á einu bikarmótinu þá verður hann fyrir því óhappi að hann dettur á miklum hraða fram af smá kletti, lendir illa. Hann fer fram fyrir sig, brotnar ofarlega í bakinu og er fluttur með þyrlu á sjúkrahús. Hann er í rauninni lamaður fyrir neðan brjóst í dag.“
Hvernig hefur hann það í dag?
„Hann fer inn á Landspítalann og síðan inn á Grensás, var í endurhæfingu. Hann náði að halda áfram í skólanum, Tækniskólinn á heiður skilið fyrir að koma til móts við hann og hjálpa honum. Í dag er hann í skólanum og næsta skref hjá okkur í hjólasamfélaginu er að fá hann inn aftur til að geta hjólað með okkur.“

Taka höndum saman
Til þess að Elís geti hjólað aftur með félögum sínum þarf hann sérútbúið rafmagnsknúið fjallahjól. Þannig hjól eru mjög dýr og þess vegna var ákveðið að fara í áheitasöfnunina. Félagar hans ætla að hjóla í heilan sólarhring á æfingahjólum í húsi Brettafélagsins að Flatahrauni 14 í Hafnarfirði.
„Hann er búinn að vera í endurhæfingu og er kominn aftur heim. Hann vill náttúrulega komast út aftur að leika. Þessi hjól eru mjög dýr þannig strákarnir voru að spjalla um hvernig þeir gætu aðstoðað hann, þá kom þessi hugmynd að fara í áheitasöfnun,“ segir Sigurður í samtali við blaðamann.

Sigurður segir að í rauninni sé allt hjólasamfélagið að taka höndum saman í þessari söfnun:
„Þetta er ekki bara Brettafélag Hafnarfjarðar heldur líka hin hjólreiðafélögin, það eru allir sem flykkjast á bak við þetta og munu hjóla þennan dag. Það eru skipulagðar götuhjólreiðar og fjallahjólreiðar, það eru allir að taka höndum saman svo hann komist sem fyrst út að leika og til að gera þetta sem bærilegast fyrir hann.“

Nánari upplýsingar um söfnunina er að finna á viðburðinum fyrir hana á Facebook.