Erlent

Móðir Filippu segir hana komna heim og þakkar dönsku þjóðinni

Atli Ísleifsson skrifar
Lýst var eftir Filippu á laugardaginn eftir að hún hafði ekki skilað sér heim úr blaðarúnti sínum.
Lýst var eftir Filippu á laugardaginn eftir að hún hafði ekki skilað sér heim úr blaðarúnti sínum. Lögregla í Danmörku/Getty

Danska stúlkan Filippa, sem fannst á lífi í gær eftir umfangsmikla leit eftir að lýst hafði verið eftir henni, fannst í einbýlishúsahverfi rétt fyrir utan Korsør, vestast á Sjálandi. Móðir hennar þakkar dönsku þjóðinni í færslu á Facebook í gærkvöldi og segir dóttur sína vera komna heim.

Danskir fjölmiðlar greina frá þessu. 32 ára karlmaður var handtekinn vegna málsins síðdegis í gær og verður hann leiddur fyrir dómara klukkan níu í dag þar sem lögregla hefur krafist gæsluvarðhalds yfir honum.

Sagt var frá hvarfi Filippu eftir að hún hafði ekki skilað sér heim úr dagblaðarúnti sínum á laugardagsmorguninn. Hún hafði þá farið á hjóli sínu til að bera út blöð í Kirkerup, milli þorpanna Sørbymagle og Fuglebjerg. Lögregla greindi svo frá því síðdegis í gær að hún hafi fundist á lífi.

Móðir Filippu segir í færslunni að líðan Filippu sé „í lagi“, eftir atvikum. Hún þakkar sömuleiðis dönsku þjóðinni innilega fyrir að hafa tekið þátt í leitinni að Filippu.

DR segir frá því að lögregla hafi verið með mikinn viðbúnað við húsið fyrir utan Korsør síðasta tæpa sólarhringinn.

Hjól, taska og sími Filippu fundust í vegarkanti á laugardaginn og hófst í kjölfarið umfangsmikil leit lögreglu. Var meðal annars notast við leitarhunda, þyrlur og dróna. Á sunnudagsmorgninum greindi lögregla frá því að unnið væri út frá þeirri kenningu að brot hafi verið framið.

Lögregla segir að ábendingar frá almenningi og myndir úr öryggismyndavélum hafi komið þeim á sporið þannig að Filippa fannst. Í heildina bárust um sex hundruð ábendingar og þá sankaði lögregla að sér myndum úr eftirlitsmyndavélum sem leiddi að lokum til handtökunnar og að Filippa fannst.


Tengdar fréttir

Filippa fannst á lífi

Filippa, þrettán ára stúlka sem saknað hafði verið síðan í eftirmiðdaginn í gær, fannst á lífi í heimahúsi í Kirkerup í Danmörku í dag. 32 ára gamall karlmaður hefur verið handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×