Menning

Óperu­draugurinn hefur sungið sitt síðasta

Bjarki Sigurðsson skrifar
Óperudraugurinn verður ekki lengur sýndur á Broadway.
Óperudraugurinn verður ekki lengur sýndur á Broadway. Getty/Nina Westervelt

Sýningin um Óperudrauginn var sýnd í síðasta sinn á Broadway í gær. Óperan var sýnd í 35 ár í leikhúsum Broadway og enduðu sýningarnar á að vera tæplega fjórtán þúsund talsins. 

The Phantom of the Opera, eða Óperudraugurinn, er einn vinsælasti söngleikur allra tíma. Lögin úr söngleiknum eru eftir Andrew Lloyd Webber og er hann byggður á skáldsögunni Le Fantôme de l'Opéra eftir franska rithöfundinn Gaston Leroux.

Draugurinn steig fyrst á svið í West End leikhúsinu í London árið 1986. Þaðan lá leiðin til Broadway árið 1988 og hefur sýningin verið þar sýnd samfleytt síðan þá. Á 35 árum hefur tekist að sýna hana 13.981 sinnum. Það eru 12.865 dagar síðan sýningin var frumsýnd og því hefur hún verið sýnd meira en einu sinni á dag að meðaltali.

Eftir sýninguna í gær mætti Webber sjálfur á svið og tileinkaði sýninguna syni sínum, Nicholas Lloyd Webber, sýninguna, en hann lést í lok marsmánaðar á þessu ári eftir baráttu við krabbamein. 

Andrew Lloyd Webber eftir lokasýninguna í gær.Getty/Nina Westervelt

Fjöldi söngleikjastjarna var í salnum, þar á meðal Glenn Close sem hefur leikið í Broadway-verkum á borð við Death and the Maiden og Sunset Boulevard, og Lin-Manuel Miranda, höfundur Hamilton og In the Heights.

Ekkert verka Broadway hafði verið lengur í sýningu en Óperudraugurinn þar til í gær. Nú tekur Chicago við titlinum fyrir það verk sem er búið að vera lengst í sýningu, af þeim verkum sem enn eru í sýningu á Broadway. Það verk var fyrst sýnt árið 1996.

Garðar Thór Cortes söngvari hefur tekið þátt í hinum ýmsu uppsetningum á Óperudraugnum, til að mynda fór hann með hlutverk draugsins sjálfs í sýningunni Love Never Dies bæði í Hamborg árin 2015 til 2016 og í Bandaríkjunum 2017 til 2018. Sýningin er framhald af Óperudraugnum og var Garðar sérstaklega valinn af Webber til þess að syngja. 

Garðar Thór Cortes í hlutverki Óperudraugsins. Með honum er Andrew Lloyd Webber.

Óperudraugurinn var settur á svið í Hörpu árið 2018. Þá fór Þór Breiðfjörð með hlutverk draugsins en einnig fóru Val­gerður Guðna­dótt­ir, Elm­ar Gil­berts­son, Sigrún Hjálm­týs­dótt­ir, Hlöðver Sig­urðsson, Bergþór Páls­son, Gísli Magna, Bjarni Snæ­björns­son, Mar­grét Eir og Greta Salóme með hlutverk en sú síðastnefnda sá einnig um leikstjórn á verkinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×