Erlent

Ung­lingur skotinn í höfuðið þegar hann fór húsa­villt

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur vekja athygli á máli drengsins sem var skotinn þegar hann bankaði upp á í röngu húsi í Kansas-borg í Missouri í síðustu viku.
Mótmælendur vekja athygli á máli drengsins sem var skotinn þegar hann bankaði upp á í röngu húsi í Kansas-borg í Missouri í síðustu viku. AP/Susan Pfannmuller/The Kansas City Star

Lögreglan í Kansas-borg í Missouri í Bandaríkjunum rannsakar nú hvort að kynþáttur svarts unglingsdrengs hafi haft eitthvað með það að gera að húsráðandi skaut hann þegar drengurinn fór húsavillt. Áverkar drengsins eru sagðir lífshættulegir.

Yfirvöld hafa litlar upplýsingar viljað gefa um hvað gerðist þegar sextán ára gamall svartur drengur var skotinn lífshættulega þegar hann ætlaði að sækja yngri tvíburabræður sína á fimmtudagskvöld. Staðarfjölmiðlar segja að húsráðandinn sem skaut hann virðist vera hvítur, að sögn AP-fréttastofunnar.

Frænka piltsins segir að hann honum hafi verið falið að sækja bræður sína en hann farið húsavillt og knúið dyra í röngu húsi. Hún segir að karlmaður hafi komið til dyra, séð drenginn og skotið hann í höfuðið. Þegar hann féll í jörðina hafi maðurinn skotið hann aftur. Piltinum hafi tekist að komast undan en þurft að leita ásjár í þremur húsum áður en honum var loks hjálpað.

Lögreglan vill ekki staðfesta hversu oft pilturinn var skotinn. Stacey Graves, lögreglustjóri, segir að þær upplýsingar sem lögregla hafi í höndunum nú bendi ekki til þess að kynþáttur drengsins hafi verið ástæða þess að hann var skotinn en það sé enn til rannsóknar.

Rannsóknin beinist einnig að því hvort að húsráðandinn hafi verið í rétti á grundvelli laga í Missouri sem gefur fólk leyfi til að verja heimili sitt með valdi. Húsráðandinn var handtekinn á fimmtudagskvöld og haldið í sólarhring.

Ástand piltsins er sagt stöðugt en að sár hans séu lífshættuleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×