Innlent

„Það væri mjög sorglegt ef villti laxinn hyrfi“ segir Ratcliffe

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ratcliffe segist afar uggandi vegna stöðu villtra laxastofna.
Ratcliffe segist afar uggandi vegna stöðu villtra laxastofna. Vísir/Sigurjón

Jim Ratcliffe, einn auðugasti maður Bretlands og áhugamaður um villta laxastofna, segir nauðsynlegt að finna leiðir til að vernda stofnana og að bregðast þurfi skjótt við.

„Ég met það sem svo að við höfum útrýmt 95% af laxastofnunum á síðustu tvö til þrjú hundruð árum. Það eru ekki margar laxveiðiár sem verða áfram til í núverandi mynd ef ekki verður brugðist við,“ segir Ratcliffe í samtali við Morgunblaðið.

Ratcliffe, sem hefur helst ratað í fréttir hérlendis fyrir jarðakaup á Norðausturlandi, er stofnandi Six Rivers Iceland sem vinnur að verndun vistkerfa nokkurra þekktra laxveiðiáa og að því að styðja viðgang laxastofna í ánum, þeirra á meðal Selá og Hofsá.

Hann er staddur hér á landi í tengslum við ráðstefnu Six Rivers Iceland, sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra setti í gær.

Ratcliffe segir í samtalinu við Morgunblaðið að maðurinn hafi ekki gengið nægilega vel um þá auðlind sem laxastofnarnir séu og að meðal annars sé nauðsynlegt að stýra veiði betur.

„Það væri mjög sorglegt ef villti laxinn hyrfi. Við erum ekki fjarri því að útrýma honum alfarið,“ segir Ratcliffe.

Hann segir að sér hafi vegnað vel í lífinu og að hann hafi valið að einbeita sér að verndun villtra laxastofna. Hann hafi engin önnur áform uppi í tengslum við jarðarkaup sín á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×