Á blaðamannafundi í dag kynntu þrír ráðherrar stöðu Landspítalaverkefnisins en stjórnvöld segjast nú sjá til lands.
„Við erum að kynna það að í fjármálaáætluninni er fullfjármagnaður þessi fyrsti áfangi og ef menn halda sama dampi sem allar forsendur eru til að gera þá er hægt að klára annan áfangann í beinu framhaldi og í heildina sé þetta um 210 milljarða fjárfesting sem ríkið myndi ráðast í, langstærsta fjárfesting sem við höfum ráðist í í sögunni,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Framkvæmdir í fyrsta áfanga áætlunarinnar hafa komist á mikið skrið síðustu ár. Það er uppbygging á meðferðarkjarna, sjúkrahóteli, rannsóknarhúsi, bílastæða- og tæknihúsi. Áætlað er að framkvæmdum í fyrsta áfanga ljúki á allra næstu árum og brátt verður hafist handa við annan áfanga áætlunarinnar en í honum felst meðal annars uppbygging á dag- og göngudeildum.
Nýtt húsnæði undir geðþjónustu mun rísa en starfsfólk og sjúklingar hafa sagt núverandi húsnæði óhentugt og ekki boðlegt. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra segir að nýja húsnæðið fyrir geðþjónustuna eiga að vera batamiðað en hvar mun það rísa?
„Það sem við erum að greina og þarf að fara yfir er staðarvalið, það er ekki útilokað að það finnist pláss fyrir það hér, ég ætla ekki að dæma um það, eða þá annars staðar, einhver hluti af þjónustunni verður auðvitað alltaf hér í tengslum við spítalann, í nálægð.“
Fólksfjölgun, öldrun þjóðarinnar og koma ferðamanna kalla á gríðarlega fjárfestingu í kerfinu að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
„Þó að efnahagsástæður kalli á það að við séum að fresta tilteknum fjárfestingum núna þá höldum við áfram af fullum krafti.“