Sport

Boðar táraflóð á tímamótum í London

Aron Guðmundsson skrifar
Mo Farah hefur gert garðinn frægan á sínum hlaupaferli
Mo Farah hefur gert garðinn frægan á sínum hlaupaferli Vísir/Getty

Breski hlauparinn Mo Farah segir að komandi London mara­þon á sunnudaginn næstkomandi verði síðasta mara­þon sitt á hlaupa­ferlinum. Í við­tali við BBC segist hann búast við því að tár muni falla að mara­þoninu loknu.

Í upp­hafi árs greindi Farah, sem unnið hefur til fjölda verð­launa á sínum ferli, frá því að hann búist við því að árið 2023 verði hans síðasta ár sem at­vinnu hlaupari.

Komandi London mara­þon verði sömu­leiðis síðasta mara­þonið hans á ferlinum.

„Þetta verður til­finninga­þrungið fyrir mig,“ sagði Farah í sam­tali við BBC. „Eftir hlaup munu tár fara að falla.“

Farah telur að stuðningurinn, sem hann fær alltaf á heima­velli í London, muni á endanum ná til sín. Hann ætlar hins vegar að gera sitt besta til þess að halda ein­beitingu á hlaupinu sjálfu.

London mara­þonið fer fram á sunnu­daginn næst­komandi. Farah var ekki á meðal kepp­enda í mara­þoninu í fyrra en þá var hann að jafna sig eftir að­gerð á mjöðm.

Takist honum að klára komandi mara­þon verður það í fyrsta skipti síðan árið 2019 sem honum tekst það. Meiðsli hafa aftrað hans virkni í hinum ýmsu hlaupum.

„Síðustu ár hafa klár­lega verið erfið. Sem í­þrótta­maður vill maður sí­fellt vera að reyna á sig og gera sitt besta en líkami minn hefur ekki gert mér kleift að gera það, undan­farin tvö ár hafa verið erfið fyrir mig.“


Tengdar fréttir

Mo Farah var seldur í man­sal sem barn

Langhlauparinn Sir Mo Farah var seldur í mansal sem barn en hann kom til Bretlands frá Sómalíu þegar hann var einungis níu ára gamall. Hann var látinn gera húsverk hjá fjölskyldu í Bretlandi og fékk ekki að fara í skóla fyrstu þrjú árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×