Umfjöllun og viðtöl: Fram - Valur 1-3 | Tryggvi Hrafn skoraði tvö eftir að hafa komið inn af bekknum

Hjörvar Ólafsson skrifar
341491991_778854143602595_1648312768705637396_n

Valur lagði Fram að velli með þremur mörkum gegn einu þegar liðin áttust við í þriðju umferð Bestu deildar karla í fótbolta í Úlfarsárdalnum í kvöld.

Fred náði forystunni fyrir Fram þegar hann skoraði með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá Magnúsi Þórðarsyni. 

Andri Rúnar Bjarnason jafnaði hins vegar metin fyrir Val með marki úr vítaspyrnu sem Guðmundur Andri Tryggvason nældi í. Vítaspyrnudómurinn var umdeilanlegur en Guðmundur Andri féll við litla snertingu. 

Í upphafi seinni hálfleiks fengu Frammarar svo víti en Guðmundur Magnússon sem náði í vítið brenndi af. Frederik Schram varði frekar slaka spyrnu Guðmundar. 

Tryggvi Hrafn Haraldson kom inná sem varamaður eftir rúmlega klukkutíma leik og sú skipting reyndist vægast sagt happadrjúg fyrir gestina frá Hlíðarenda. 

Tryggi Hrafn skoraði nefnilega tvívegis en bæði mörk hans komu eftir sendingu frá Adami Ægi Pálssyni. Þetta voru fyrstu tvær stoðsendingarnar hjá Adami Ægi fyrir Val í deildinni en hann var stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar þegar hann lék fyrir Keflavík síðasta sumar. 

Valur hefur þar af leiðandi sex stig, jafn mörg og Víkingur, en liðin sitja á toppi deildarinnar. Víkingur á leik til góða á Val en Fossvogspiltar mæta KR annað kvöld. Fram er aftur á móti í tíunda sæti deildarinnar með tvö stig. 

Guðmundur Magnússon brenndi af víti. Vísir/Diego

Guðmundur: Hefði breytt miklu ef ég hefði skorað úr vítinu

„Mér fannst við spila bara mjög vel í þessum leik og verðskulda allavega eitt stig og í rauninni bara stigin þrjú. Við komum sterkir inn í seinni hálfeikinn og fáum víti sem ég hefði átt að skora úr. Það hefði breytt miklu ef ég hefði skorað úr vítinu,“ sagði Guðmundur Magnússon sem brenndi af víti sem hann nældi í sjálfur í upphafi seinni hálfleiks. 

„Það er bara stundum þannig að þú spila vel og færð ekkert út úr því og þannig var það í kvöld. Við erum svekktir og sárir með úrslitin en sáttir við frammistöðuna. Ég tek á mig vítaklúðrið en það þýðir ekki að pæla of lengi í þessu. Nú er það bara að einbeita sér að næstu verkefnum," sagði framherjinn. 

Tryggvi Hrafn: Var ósáttur við að byrja á bekknum

„Ég er sáttur við þessa innkomu en hefði reyndar viljað ná þrennunni. Ég var ósáttur við að byrja á bekknum en það er ekkert annað að gera en að sýna það og sanna að maður eigi heima í byrjunarliðinu þegar sjénsinn kemur,“ sagði Tryggvi Hrafn, sem var hetja Vals í kvöld. 

„Ég var ekki nógu góður á móti Blikum þannig að það var svo sem alveg skiljanlegt að ég hafi verið settur á bekkinn. Ég var hins vegar ekki ánægður með það. Ég tel mig hafa gert tilkall til byrjunarliðssætis með þessari innkomu en við sjáum bara til,“ sagði sóknarmaðurinn enn fremur. 

Tryggvi Hrafn Haraldsson kom, sá og sigraði eftir að hann kom inná. Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Valur?

Valur nýtti sín færi betur í jöfnum leik þar sem sigurinn hefði getað lent hvoru megin sem var. Tryggvi Hrafn gerði gæfumuninn þegar hann kom inná staðráðinn í að sýna það og sanna að hann eigi skilið sæti í byrjunarliði Vals í næstu leikjum. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Adam Ægir Pálsson var líflegur í sóknarleik Vals og lagði upp bæði mörk Tryggva Hrafns sem spilaði frábærlega þann hálftíma sem hann var inná vellinum. Hjá Fram átti Magnús Þórðarson góðan leik á kantinum og Albert Hafsteinsson var öflugur inni á miðsvæðinu. 

Hvað gekk illa?

Aroni Jóhannssyni gekk illa að komast inn í leikinn og hann virkaði pirraður á því hversu lítið hann komst í boltann. Guðmundur Magnússon sýndi síðan að krosstrén bregðast víst líka þegar Frederik Schram varði vítið hans. 

Hvað gerist næst?

Fram sækir Breiðablik heim á Kópagsvöllinn á föstudaginn kemur á meðan Valur fær Stjörnuna í heimsökn á Hlíðarenda á laugardaginn næstkomandi. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira