Íslenski boltinn

„Þau öskruðu nafnið mitt og ég skilaði mínu“

Jón Már Ferro skrifar
Óskar skoraði fjórða mark Fylkis og rak naglann í kistu FH-inga.
Óskar skoraði fjórða mark Fylkis og rak naglann í kistu FH-inga. vísir/Pawel Cieslikiewicz

Hinn tvítugi sóknarmaður Fylkis, Óskar Borgþórsson, skoraði fjórða mark sinna manna og gulltryggði 4-2 sigur gegn FH í 3. umferð Bestu deildarinnar.

„Já ég er ekkert eðlilega ánægður, kom inn af bekknum, skoraði og fagnaði fyrir framan áhorfendurnar en tilfinningin var geggjuð.“

Óskar fékk boltann úti á kanti vinstra meginn, keyrði inn á teiginn og kláraði með þéttingsföstu skoti niður í hægra hornið.

„Þegar ég sá boltann í netinu, hugsaði ég bara, vá ég er að fara að hlaupa í áttina að stúkunni og þetta var ólýsanleg tilfinning, besta tilfinning í heimi.“

Ungir áhorfendur Fylkis kölluðu mikið eftir því að fá Óskar inn á völlinn. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari hans, var greinilega að hlusta því skömmu síðar var Óskar kominn inn á. 

„Ég hef verið að þjálfa eitthvað af þessum krökkum og vinna í Árbæjarskóla. Þau öskruðu bara nafnið mitt og ég skilaði mínu, skoraði og við unnum leikinn,“ sagði Óskar glaður í bragði.

Hinn elgtanaði byrjaði fyrstu tvo leiki tímabilsins en var á bekknum í kvöld. Aðspurður um liðsval og hvernig hann eigi að koma sér í byrjunarliðið var Óskar hógvær.

„Hann ræður því, ég ætla ekki að ráða byrjunarliðinu en ég í reyni bara að gera mitt besta á vellinum og hann ræður liðinu. Ég þarf að halda áfram að leggja á mig fram á æfingum og vera geggjaður í leikjum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×