Íslenski boltinn

„Það var allt annað að sjá okkur í dag“

Jón Már Ferro skrifar
Ásgeir skoraði fallegt skallamark í kvöld.
Ásgeir skoraði fallegt skallamark í kvöld. vísir/diego

Ásgeir Eyþórsson, varnarmaður Fylkis, stangaði boltann í netið þegar hann skoraði þriðja mark sinna manna í 4-2 sigri á FH í 3. umferð Bestu deildarinnar.

Ásgeir lenti í samstuði um miðbik seinni hálfleiks og þurfti hann aðhlynningu í kjölfarið. Sjúkraþjálfarateymi Fylkismanna vafði umbúðum um höfuðið á honum og fékk hann leyfi til að skokka aftur inn á völlinn stuttu síðar.

„Þetta var skelfilega klaufalegt. Ég hljóp á Elís í miðjum teignum í einhverju horni. Þetta var nett pirrandi en maður spilar bara betur með smá skurð.“

Eftir erfiða byrjun á mótinu voru Fylkismenn staðráðnir í að svara fyrir sig. Ásgeir sagði mikinn kraft hafa einkennt spilamennsku síns liðs í kvöld.

„Við vorum kannski ekki sáttir með spilamennskuna í fyrstu tveimur leikjunum. Mér fannst við nær þeim á réttum augnablikum í kvöld. Við byrjuðum leikinn vel en duttum kannski aðeins niður í lok fyrri hálfleiks. Svo var alvöru andi í okkur og í lokin var aldrei spurning um að við værum að fara að sigla þessu heim,“ sagði Ásgeir.

Sóknarleikur Fylkis byggðist upp á hröðum og skilvirkum skyndisóknum og oftar en ekki særðu þeir lánlausa FH-inga. Til þess að komast í skyndisóknir voru heimamenn aggressívir og fljótir að setja pressu á boltamanninn.

„Við töluðum um það eftir Keflavíkurleikinn að við höfum verið of passívir. Þar ætluðum við að halda fengnum hlut, en það var allt annað að sjá okkur í dag. Við vitum það alveg að við erum með eldfljóta menn fram á við. Við erum alveg sáttir við að fá liðin aðeins hærra á móti okkur og breika fyrir aftan þá. Það gekk bara vel í dag,“ sagði Ásgeir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×