Erlent

Stjórnarformaður BBC segir af sér vegna láns til Boris Johnson

Samúel Karl Ólason skrifar
Richard Sharp segist hafa brotið reglur um hagsmundaskráningu í gáleysi.
Richard Sharp segist hafa brotið reglur um hagsmundaskráningu í gáleysi. AP/Jordan Pettitt

Richard Sharp, stjórnarformaður Breska ríkisútvarpsins, hefur sagt af sér eftir rannsókn þar sem skipun hans í embætti var skoðuð. Sú rannsókn snerist að miklu leyti um að Sharp hafi hjálpað Boris Johnson, þáverandi forsætisráðherra, að fá lán árið 2021, nokkrum vikum áður en Johnson skipaði hann í starfið.

Sharp mun hafa hjálpað Johnson að fá átta hundrað þúsund punda lán frá kanadískum auðjöfri en Sharp sjálfur er auðugur bakhjarl breska Íhaldsflokksins, sem Johnson leiddi er hann var forsætisráðherra.

Í yfirlýsingusem breskir fjölmiðlar vísa í segist Sharp hafa brotið reglur um hagsmundaskráningu í gáleysi og að hann segði af sér til að koma í veg fyrir frekari truflun á starfi BBC. Hann ætlar að halda áfram í starfi þar til búið er að finna einhvern til að taka við starfinu.

Skömmu eftir að Sharp var skipaður í stöðu stjórnarformanns BBC var opnuð rannsókn á skipuninni en sá sem stýrði henni þurfti fljótt að segja af sér vegna tengsla við Sharp. Þá tók við henni lögmaður sem heitir Adam Heppinstall KC. Hann lauk rannsókn sinni í morgun með því að birta skýrslu um rannsóknina.

Þar kemur fram að Sharp hafi sagt Johnson í nóvember 2020 að hann vildi verða stjórnarformaður BBC. Áður en viðtöl voru tekin við umsækjendur um stöðuna sagði Sharp einnig við Johnson að hann ætlaði að kynna hann fyrir einhverjum sem gæti aðstoðað forsætisráðherrann varðandi fjárhagsmál hans.

Þetta var ekki tilkynnt til yfirvalda er Sharp sótti um stöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×