Erlent

Myrti fimm eftir að hafa verið beðinn um að hætta að skjóta úr byssu

Árni Sæberg skrifar
Lögreglumenn færa lík fórnarlambanna út af heimili þeirra.
Lögreglumenn færa lík fórnarlambanna út af heimili þeirra. Yi-Chin Lee/AP

Karlmaður í Cleveland í Texasfylki í Bandaríkjunum er grunaður um að hafa myrt fimm hondúrska nágranna sína, þar á meðal átta ára gamalt barn, eftir að hann hafði verið beðinn um að hætta að skjóta úr riffli í bakgarði sínum. Tvö fórnarlambanna fundust örend ofan á tveimur börnum, sem lifðu árásina af.

Maðurinn, sem heitir Francisco Oropeza og er 38 ára gamall, hefur verið á flótta undan laganna vörðum frá því að hann framdi ódæðið seint í gærkvöldi. Hann er talinn hafa verið ölvaður og hafa flúð inn í nærliggjandi skóglendi.

Í frétt AP um málið segir að nágrannar hans hafi gefið sig að tali við hann seint í gærkvöldi og beðinn hann að láta af háttsemi sinni þar sem þeir hafi verið á leið í háttinn. Þá hafi hann haldið yfir í næsta hús og skotið fimm úr tíu manna hondúrskri fjölskyldu í höfuðið með hálfsjálfvirkum riffli.

Fórnarlömbin voru á bilinu átta til fjörutíu ára gömul. Greg Capers, lögreglustjórinn í San Jacinto sýslu, segir í samtali við AP að tvær konur hafi fundist látnar ofan á tveimur ósærðum börnum. „Þessar hondúrsku konur lögðust ofan á börnin til þess að bjarga lífi þeirra,“ er haft eftir honum.

Þá segir hann að lögregluyfirvöld á svæðinu hafi áður haft afskipti af manninum eftir að hann hafði verið að skjóta úr riffli í bakgarði sínum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×