Enski boltinn

Vilja að lið heiðri krýningu Karl konungs með því að spila þjóð­sönginn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Karl III konungur Bretlands verður krýndur um næstu helgi.
Karl III konungur Bretlands verður krýndur um næstu helgi. Getty/Carrie Davenport

Þegar kemur að því að spila þjóðsöng fyrir íþróttaviðburði eru Bandaríkin sér á báti. Breska krúnan hefur þó beðið lið ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu að heiðra krýningu kóngsins um næstu helgi með því að spila þjóðsöng Bretlandseyja fyrir hvern leik.

Karl konungur hinn III, betur þekktur sem Karl Bretaprins, verður krýndur til konungs um næstu helgi, fyrstu helgi maímánaðar. Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa því beðið lið deildarinnar um að spila breska þjóðsönginn fyrir leiki helgarinnar. Ákvörðunin liggur þó hjá liðunum 10 sem eiga heimaleiki segir í frétt The Athletic.

Liverpool mætir Brentford á Anfield og talið er að þjóðsöngnum verði illa tekið þar en stuðningsfólk Liverpool hefur áður púað á meðan þjóðsöngurinn er spilaður.

Karl Konungur verður krýndur í hádeginu á laugardag og vegna þess hefur enska úrvalsdeildin ákveðið að það verði enginn hádegisleikur eins og vani er.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem enska úrvalsdeildin biður liðum að spila þjóðsönginn en það var einnig gert til að votta Elísabetu Bretlandsdrottningu virðingu eftir andlát hennar í september.

Leikur ensku úrvalsdeildarinnar frá 6. til 8. maí

Laugardagurinn 6. maí

  • Bournemouth - Chelsea
  • Manchester City - Leeds United
  • Tottenham Hotspur - Crystal Palace
  • Wolves - Aston Villa
  • Liverpool - Brentford

Sunnudagurinn 7. maí

  • Newcastle United - Arsenal
  • West Ham United - Manchester United

Mánudagurinn 8. maí

  • Fulham - Leicester City
  • Brighton & Hove Albion - Everton
  • Nottingham Forest - Southampton



Fleiri fréttir

Sjá meira


×