Enski boltinn

Xabi Alonso kominn efst á blað hjá Spurs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Xabi Alonso er eftirsóttur.
Xabi Alonso er eftirsóttur. getty/Ulrik Pedersen

Xabi Alonso er einn spennandi ungi knattspyrnustjórinn í Evrópuboltanum um þessar mundir og mörg félög hafa áhuga á honum.

Meðal þeirra er Tottenham sem er í stjóraleit. Ekki nóg með það heldur er Alonso efstur á blaði forráðamanna félagsins samkvæmt De Telegraaf.

Spánverjinn var ráðinn stjóri Bayer Leverkusen í byrjun október í fyrra. Hann hefur gert flotta hluti með þýska liðið sem hefur unnið sautján af 31 leik undir hans stjórn. Leverkusen er í 6. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 48 stig, átta stigum frá Meistaradeildarsæti.

Antonio Conte hætti sem stjóri Spurs í lok mars. Cristian Stellini var ráðinn bráðabirgðastjóri út tímabilið en var svo rekinn 24. apríl, eftir 6-1 tap fyrir Newcastle United. Ryan Mason var þá ráðinn. Hann hefur stýrt Spurs í tveimur leikjum. Liðið gerði 2-2 jafntefli við Manchester United en tapaði svo fyrir Liverpool um helgina, 4-3.

Auk Alonos hafa menn á borð við Julian Nagelsmann, Vincent Kompany og Luis Enrique verið orðaðir við stjórastarfið hjá Tottenham.

Alonso þekkir vel til á Englandi en hann lék sem kunnugt er með Liverpool á árunum 2004-09.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×