Fótbolti

Milan og Roma töpuðu dýrmætum stigum en Inter vann stórt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lautaro Martinez skoraði tvö mörk fyrir Inter í kvöld.
Lautaro Martinez skoraði tvö mörk fyrir Inter í kvöld. Vísir/Getty

AC Milan tapaði dýrmætum stigum í baráttu um sæti í Meistaradeildinni þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Cremonese í kvöld. Inter vann 6-0 stórsigur á Verona og er í fjórða sætinu.

Það er hart barist um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta ári í Serie A. Juventus, Lazio, Inter, Atalanta, AC Milan og Roma berjast um þrjú sæti í deild þeirra bestu að ári.

AC Milan tapaði dýrmætum stigum í þeirri baráttu í kvöld. Liðið náði aðeins 1-1 jafntefli gegn Cremonese á heimavelli eftir að hafa jafnað í uppbótar tíma. Á meðan unnu nágrannar þeirra í Inter 6-0 stórsigur á útivelli gegn Verona þar sem Lautaro Martinez og Edin Dzeko skoruðu tvö mörk hvor auk þess sem Hakan Calhanoglu bætti við marki og heimamenn skoruðu auk þess sjálfsmark.

Roma varð einnig á í messunni þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Monza á útivelli. Stephan El Shaarawy kom Roma yfir en Luca Caldirola jafnaði metin fyrir hlé. Lokatölur 1-1 og dýrmæt stig í súginn hjá lærisveinum Jose Mourinho.

Hitt Rómarliðið, Lazio, vann hins vegar 2-0 sigur á Sassuolo á heimavelli sínum í kvöld. Felipe Anderson og Toma Basic skoruðu mörkin og tryggðu heimaliðinu stigin þrjú.

Eftir leiki dagsins er Lazio í öðru sæti deildarinnar með 64 stig en Juventus stigi á eftir í þriðja sæti. Inter er í fjórða sætinu, því síðasta sem gefur sæti í Meistaradeild, með 60 stig en Atalanta, Roma og Milan öll með 58 stig þar á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×