Fótbolti

Mætti með hljóðnema á sér til að verja sig fyrir „versta dómaranum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josè Mourinho fer oft sínar eigin leiðir eins og nýjar fréttir sanna enn á ný.
Josè Mourinho fer oft sínar eigin leiðir eins og nýjar fréttir sanna enn á ný. Getty/Fabio Rossi

Jose Mourinho, þjálfari Roma, kann betur en flestir að koma sér í fréttirnar og nú mætti halda að hann væri að leika aðalhlutverkið í leynilögreglusögu.

Mourinho hefur nú greint frá því að hann hafi mætt með hlerunartæki á sér til að verja sig fyrir því sem dómarar ætla að dæma hann fyrir.

Dómari leiksins hjá Roma á móti Monza í vikunni var hinn 38 ára gamli Daniele Chiffi sem Mourinho hefur kallað „versta dómara sem hann hefur lent í“.

„Ég er ekki vitlaus. Í dag mætti ég til leiks með hljóðnema. Ég tók allt upp. Frá því að ég yfirgaf búningsklefann þar til að ég snéri aftur. Ég var að verja sjálfan mig,“ sagði Jose Mourinho.

Mourinho fékk tveggja leikja bann eftir að hafa fengið rauða spjaldið í 2-1 tapi á móti Cremonese í febrúar.

Umræddur Chiffi rak þá Mehmet Celik af velli eftir að hafa sýnt honum hans annað gula spjald í uppbótartíma.

„Hann er versti dómari sem ég hef hitt á minni ævi. Hann er hræðilegur og hefur enga samúð, býður ekki upp á nein samskipti og hefur engan skilning,“ sagði Mourinho um Chiffi dómara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×