Þetta kemur fram í tilkynningu Lögreglunnar á Suðurlandi. Í henni segir að rannsóknin á andláti konunnar standi enn þá yfir. En hún fannst látin í heimahúsi á Selfossi þann 27. apríl síðastliðinn. Konan hét Sofia Sarmite Kolesnikova og var 28 ára gömul.
Mennirnir tveir, sem eru á þrítugsaldri, hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan 29. apríl. „Nú fyrir stundu tók lögreglustjóri ákvörðun um að aflétta gæsluvarðhaldi yfir öðrum karlmanninum. Krafa hefur verið lögð fram fyrir héraðsdómi um að hinn karlmaðurinn sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á grundvelli rannsóknarhagsmuna,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
„Mínum skjólstæðing hefur verið sleppt úr varðhaldi. Það að honum hafi verið sleppt bendir til þess að lögreglan telji að hann sé ekki viðriðin þetta,“ segir Torfi Ragnar Sigurðsson, lögmaður mannsins sem sleppt var. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið.