Erlent

Af­lýsa neyðar­á­standi vegna kórónu­veirufar­aldursins

Kjartan Kjartansson skrifar
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). AP/Martial Trezzini

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) aflýsti heimsneyðarástandi vegna kórónuveirufaraldursins í dag. Þrátt fyrir það segja sérfræðingar stofnunarinnar að faraldrinum sé ekki lokið. Þúsundir manna láti enn lífið af völdum veirunnar í hverri viku.

„Það er með mikilli von í brjósti sem ég lýsi Covid-19 búið sem hnattrænu neyðarástandi í heilbrigðismálum,“ sagði Tedro Ghebreyesus, forstjóri WHO, í dag.

WHO lýsti fyrst yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna faraldursins 30. janúar árið 2020. Þrátt fyrir sóttvarnaaðgerðir sem fólust meðal annars í samkomu- og ferðatakmörkunum og bóluefni er áætlað að í það minnsta sjö milljónir manna hafi látið lífið til þessa.

Tedros sagði að faraldurinn hefði verið í rénun í meira en ár. Mörg ríki hefðu þegar litið svo á að faraldurinn heyrði sögunni til.

„Það þýðir ekki að Covid-19 sé búið sem hnattræn ógn við heilbrigði,“ sagði Tedros. Hann hiki ekki við að biðja sérfræðinga stofnunarinnar um að endurmeta stöðuna virðist veira aftur ætla að ógna heimsbyggðinni. Enn sé hætt á að ný afbrigði veirunnar komi fram.

Áætlað er að um 764 milljónir smita hafi greinst um allan heim á þeim rúmu þremur árum sem faraldurinn hefur geisað. Um milljarðar manna hafa fengið að minnsta kosti einn bóluefnaskammt gegn veirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×