Íslenski boltinn

KR-ingar slógu 42 ára félagsmet í markaleysi á Hlíðarenda í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Theodór Elmar Bjarnason og félagar í KR finna ekki leiðina að markinu og hafa ekki gert það síðan 15. apríl.
Theodór Elmar Bjarnason og félagar í KR finna ekki leiðina að markinu og hafa ekki gert það síðan 15. apríl. Vísir/Diego

KR-ingar hafa ekki skorað í fjórum deildarleikjum í röð en það hefur aldrei gerst áður í nútímafótbolta eða frá því að deildin varð fyrst tíu liða árið 1977.

KR-liðið hefur ekki skorað í 370 mínútur eða síðan að Benoný Breki Andrésson innsiglaði sigur í Keflavík 15. apríl síðastliðinn.

Síðan þá hefur KR-liðið spilað fjóra leiki í röð án þess að ná að skora. Það sem meira er að allir þessir fjórir leikir hafa tapast. Mótherjar KR-liðsins hafa skorað tólf mörk í röð án þess að KR hafi náð að svara fyrir sig.

Þetta er lengsta bið KR eftir deildarmarki frá því að deildin innihélt fyrst tíu lið en gamla félagsmet KR í nútíma fótbolta var orðið næstum því 42 ára gamalt.

Fyrir þetta tímabil hafði lið undir stjórn Rúnars Kristinssonar aldrei spilað meira en tvo deildarleiki í röð án þess að skora mark.

Nú er hins vegar félagsmetið fallið og þetta er orðið sögulega slæm frammistaða fyrir framan mark andstæðinganna.

KR-ingar léku 346 mínútur án þess að skora deildarmark sumarið 1981 en þá bið endaði Óskar Ingimundarson biðina í leik á móti Víkingi. KR gerði tvö markalaus jafntefli í þessari löngu bið eftir marki í júní 1981.

KR þurfti líka að bíða lengi eftir marki sumarið 1988 og líka sumarið 1977 þegar KR féll síðast úr efstu deild.

  • Lengsta bið KR eftir deildarmarki á einu tímabili:
  • 370 mínútur KR 2023 (enn í gangi)
  • 346 mínútur KR 1981
  • 342 mínútur KR 1988
  • 331 mínúta KR 1977



Fleiri fréttir

Sjá meira


×